Fótbolti

Stolt að vera sú fyrsta sem spilar fyrir PSV Eindhoven

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Björk Kristjánsdóttir mun spila í treyju númer 23 hjá PSV.
Anna Björk Kristjánsdóttir mun spila í treyju númer 23 hjá PSV. Mynd/Heimasíða PSV
Íslenski landsliðsmiðvörðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir færir sig um set frá Svíþjóð og yfir til Hollands en hún hefur skrifað undir hjá hollenska félaginu PSV Eindhoven.

PSV Eindhoven staðfestir samning Önnu Bjarkar og belgíska landsliðsframherjans Daviniu Vanmechelen.





Davinia Vanmechelen kemur til PSV frá franska liðinu Paris Saint-Germain en hún er aðeins nítján ára gömul.

Okkar kona er öllu reynslumeiri en Anna Björk er tíu árum eldri og mun halda upp á þrítugsafmælið sitt í október.

PSV Eindhoven endaði í fimmta sæti á síðustu leiktíð en komst í bikarúrslitin annað árið í röð. Liðið er núna í efsta sæti deildarinnar og er með 12 sigra og aðeins 9 mörk á sig í 14 leikjum.

„Ég er mjög stolt af því að verða á næstu mánuðum fyrsta íslenska konan sem spilar fyrir þetta stóra félag. Vonandi get ég hjálpað liðinu og skilað því sem liðið ætlast til af mér. Ég get vonandi bætt mínum styrkleikum við lið sem er að spila mjög vel í dag,“ sagði Anna Björk í samtali við heimasíðu PSV.

Anna Björk hefur verið í atvinnumennsku frá 2016, fyrst með Örebro og svo með Limhamn Bunkeflo frá 2017. Anna á að baki 40 leiki með íslenska A-landsliðinu frá árinu 2013.

Anna Björk lék með Stjörnunni áður en hún fór út í atvinnumennsku 26 ára gömul en hún er uppalinn í KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×