Enski boltinn

Vitlaust sjónarhorn plataði VAR dómarana í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri var ekki sáttur.
Maurizio Sarri var ekki sáttur. Getty/Chris Brunskill
Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, var ekki sáttur með vítadóminn sem réð úrslitum í fyrri leik Chelsea og Tottenham í enska deildabikarnum í gærkvöldi. Hann hefur líka ýmislegt til síns máls.

Tottenham maðurinn Harry Kane fiskaði víti og skoraði sjálfur úr því eina mark leiksins. Myndavéladómararnir skoðuðu atvikið og úrskurðuðu að Kane hafi ekki verið rangstæður þegar hann fékk stungusendinguna inn fyrir vörn Chelsea.





Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, felldi síðan Kane sem átti alltaf að fá víti ef hann var réttstæður. En það er á reiki hvort Kane hafi verið réttstæður þrátt fyrir þennan úrskurð VAR dómaranna.

Sjónarhorn myndavélarinnar virðist nefnilega hafa plataði VAR dómarana í gær og Maurizio Sarri sannaði það með myndbroti úr myndavél Chelsea sem var mun betur staðsett.





Myndvél Chelsea var í beinni línu við Harry Kane og sýndi að hann hallaði sér inn fyrir vörnina áður en hann fékk boltann. Þessi líkamsstaða Kane sást aftur á móti ekki á myndunum frá hinni myndavélinni sem var ekki í beinni línu við Kane.

Skysports fjallaði um málið og sýndi þessi tvö ólíku sjónarhorn sem má sjá hér fyrir neðan.



Sjónarhornið úr myndavél VAR dómaranna
Skjámynd/Sky Sports
Sjónarhornið úr myndavél Chelsea
Skjámynd/Sky Sports
Maurizio Sarri vildi þó ekki gera mikið úr málinu. „Ég sá myndbrot úr okkar myndavél fyrir nokkrum mínútum og þar sást að þetta var rangstaða. Okkar myndavél var í beinni línu við Kane og hann var rangstæður,“ sagði Maurizio Sarri.

Chelsea á seinni leikinn á heimavelli sínum en það sem hefur betur kemst í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley.

„Höfuðið hans gerir hann rangstæðan. Það er ekki mikilvægt. Það sem er mikilvægt er að aðstoðardómarinn elti ekki boltann og hafði með því mikil áhrif á okkar varnarmenn. Eins og staðan er núna þá kunna enskir dómarar ekki að nota þetta kerfi,“ sagði Maurizio Sarri.





„VAR er í notkun á Ítalíu en það gekk skelfilega til að byrja með og það var mjög erfitt fyrir dómara að nota kerfið. Á þessari stundu eru dómararnir ekki tilbúnir að nota kerfið. Kane var greinilega rangstæður,“ sagði Sarri.

„Þeir þurfa að skoða þetta betur. Það er líka mjög skrýtið að það sé ekki notað í ensku úrvalsdeildinni en er síðan notað í enska deildabikarnum,“ sagði Sarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×