Innlent

Borgi 375 þúsund eftir heyrúlludeilu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Heyrúllur voru á röngum stað eftir jarðaviðskipti.
Heyrúllur voru á röngum stað eftir jarðaviðskipti. Fréttablaðið/Pjetur
Seljendur sauðfjárjarðar í Dalasýslu voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdir til að greiða kaupendum 375 þúsund krónur vegna heyrúllna sem ekki voru á jörðinni við afhendingu hennar. Þau voru þó sýknuð af stærstum hluta kröfu kaupenda.

Umræddar heyrúllur voru geymdar á jörð sem seljendur höfðu séð um heyskap á. Jörðin í um 30 kílómetra fjarlægð frá hinni keyptu jörð. Töldu seljendur að þeir hefðu með því afhent rúllurnar í samræmi við kaupsamning en kaupendur vildu meina að þær hefðu átt að vera til staðar á hinni seldu jörð.

Krafa kaupendanna var rúmlega 2,1 milljón króna; tæplega 1,3 milljónir vegna heysins, 375 þúsund vegna flutnings, lestunar og losunar þess og rúmlega 500 þúsund vegna ofgreiddrar stuðningsgreiðslu vegna sauðfjárræktunar.

Héraðsdómur sýknaði seljendur af kröfu um endurgreiðslu vegna stuðningsgreiðslunnar enda hefðu kaupendur aldrei átt tilkall til hennar.

Tjónið vegna heysins taldi dómurinn ofmetið og féllst aðeins á greiðslu vegna flutnings þess en ekki í tengslum við andvirði þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×