Innlent

Vita um hættuna en taka samt sénsinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá stórbruna sem varð á Hvaleyrarbraut í nóvember.
Frá stórbruna sem varð á Hvaleyrarbraut í nóvember. vísir/vilhelm
„Vitað er um barnafjölskyldur sem búa í iðnaðarhverfum. Það er ekki boðlegt,“ segir Sigurður P. Sigmundsson, fulltrúi Bæjarlistans í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar, sem gagnrýnir bæjaryfirvöld vegna mikils fjölda sem býr í atvinnuhúsnæði í bænum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudag telur slökkviliðið að um 1.100 manns geti búið ólöglega í atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði. Frá því 2008 hafi fjöldi slíkra dvalarstaða nærri þrefaldast í bænum. Það er mesta aukningin á höfuðborgarsvæðinu.

Sigurður kveðst hafa tekið málið upp fyrir rúmu ári er hann var áheyrnarfulltrúi í skipulags- og byggingarráði. „Undirtektir voru daufar,“ segir Sigurður sem nú á fast sæti í ráðinu. „Ég ræddi þetta í sumar og þá hafði meirihlutinn lítinn áhuga. Formaður ráðsins spurði af vandlætingu: Hvað ætlar þú að gera við fólkið, henda því út á götu eða hvað?“

Sigurður segir að á fund skipulagsráðs hafi borist bréf frá heilbrigðiseftirlitinu 5. október þar sem vakin var athygli á stöðunni. „Á þeim fundi kom glögglega í ljós að hvaða aðilar sem eiga hlut að máli varðandi eftirlit með ólöglegri búsetu virðast vísa hver á annan og telja sig ekki hafa nægileg úrræði eða lagalegar heimildir til að taka á málinu,“ segir hann. Þar vísi hann í bæjaryfirvöld, heilbrigðiseftirlitið, slökkviliðið og lögregluna.

„Hvað Hafnarfjarðarbæ varðar þá liggur skýrt fyrir að óheimilt er að leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi nema fyrir liggi staðfesting leyfisveitenda á því að starfsemin sé í samræmi við samþykkta notkun,“ segir Sigurður. Bærinn hafi nægar heimildir til að framfylgja eftirliti. „Því er hins vegar borið við að bærinn hafi ekki mannskap til að sinna þessu hlutverki – sem er alveg fráleitt. Því hefur nánast ekkert verið aðhafst í þessu máli undanfarin ár.“

Á fundi bæjarráðs 4. desember var samþykkt að óska eftir upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um fjölda fólks sem býr í ólöglegu húsnæði. Þann 11. desember segir Sigurður að hafi verið lagðar fram tæplega tveggja ára gamlar upplýsingar frá slökkviliðinu.

„Í mínum huga og minnihlutans í skipulags- og byggingarráði er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Því er mikilvægt að fá nýjustu upplýsingar um fjölda þeirra sem búa í ólöglegu húsnæði og að taka út þá aðstöðu sem fólk býr við,“ segir hann.

Þá segir Sigurður minnihlutinn leggja áherslu á að kortleggja vandann. Í framhaldinu þurfi að skoða hvaða leiðir eru færar til úrbóta. „Að okkar mati er hér ekki um póli­tískt mál að ræða og því furðum við okkur á því hversu tregur meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar hefur verið til að taka þetta mál til umræðu,“ segir hann.

„Málið hefur verið til skoðunar og úrvinnslu hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar undanfarnar vikur en til að leggja áherslu á mikilvægi þess var ákveðið að fá slökkviliðsstjóra á fund bæjarráðs til að fara yfir stöðuna,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Mikilvægt hafi þótt að bæjarráðsfulltrúar gerðu sér grein fyrir þeim úrræðum sem slökkviliðið og byggingarfulltrúi hafa til að bregðast við og hvernig tekið sé á þessum málum á höfuðborgarsvæðinu almennt.

„Sameiginleg bókun bæjarráðsfulltrúa á fundinum sýnir að að allir eru meðvitaðir um þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Rósa. Þetta sé mikilvægt og þess vegna hafi henni sem bæjarstjóra verið falið að taka málið upp innan Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er sameiginlegt viðfangsefni sveitarfélaganna og slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.“

Eins og fyrr er getið kveður Sigurður dæmi um búsetu barnafjölskyldna í iðnaðarhverfum. „Þá er vitað um að fjöldi erlendra starfsmanna býr saman í fleti á milliloftum í atvinnuhúsnæði. Það er fráleit staða á 21. öld,“ segir hann. Atvinnurekendur sem fái fólk að utan beri ábyrgð gagnvart fólkinu fyrir sitt leyti. „En svo eru það náttúrlega sveitarfélögin sem leyfa þessu að gerast. Þetta er ólöglegt en samt komast menn upp með þetta.“

Tveir eldsvoðar í atvinnuhúsnæði í nóvember virðast að sögn Sigurðar hafa orðið til þess að menn hafi hrokkið við. Þar hafi enginn búið en svo hefði vel getað hafa verið. „Það vita allir að þetta gengur ekki en menn eru að taka sénsinn. Stóra vandamálið er að við höfum ekki verið að byggja nóg af ódýrum, litlum íbúðum undanfarin ár. Ég bara sem íbúi Hafnarfjarðar vil ekki standa svona að málum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×