Lífið

Í gegnum súrt og sætt í sjötíu ár

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hlöðver og Ólöf eru sammála um að þeim hafi alltaf komið vel saman. Þau ætla að halda upp á brúðkaupsafmælið með því að bjóða fjölskyldunni heim þann 26. desember.
Hlöðver og Ólöf eru sammála um að þeim hafi alltaf komið vel saman. Þau ætla að halda upp á brúðkaupsafmælið með því að bjóða fjölskyldunni heim þann 26. desember. fréttablaðið/anton brink
Þau hafa þolað saman súrt og sætt í sjö áratugi, hjónin Hlöðver Jóhannsson og Ólöf Sigríður Björnsdóttir.

Reyndar kynntust þau árið 1943 þegar hún var sextán ára og hann átján og fljótlega varð þeim ljóst að þau vildu ganga götuna saman. Sú ákvörðun var innsigluð með brúðkaupi á annan í jólum árið 1948 svo nú fagna þau sjötíu ára brúðkaupsafmæli þann sama mánaðardag.

Ólöf stendur við eldhúsborðið með flotta svuntu og er að móta litlar gerbollur og raða þeim á plötu þannig að þær myndi jólatré, þegar mig ber að garði.

Heimili þeirra hjóna er í einu af yngri hverfum Kópavogs og þar inni er jólalegt og fagurt um að litast. Meðal þess sem athygli vekur eru litlar bjöllur á snúrum, sem bæði prýða eldhúsið og sólhús sem blasir við út um eldhúsgluggann. Ólöf gengst við að hafa heklað bjöllurnar.

„Ég er mikil jólamanneskja,“ segir hún. „Byrja á að setja upp aðventukrans laugardaginn fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, svo tíni ég upp eitt af öðru og kem því fyrir. Fer óhrædd upp í tröppur enn þá. – Nú ætla ég að klára þetta bollutré snöggvast og láta það hefa sig áður en ég gef þér kaffi. Hingað kemur enginn án þess að fá kaffi.“

Hlöðver er inni í stofu og setur snarlega ný batterí í heyrnartækin þegar hann veit af hvers konar tagi gesturinn er. Hann kveðst heyra orðið illa. „Ég vann svo mikið á vélum og tækjum og framan af voru engar heyrnarhlífar til taks,“ segir hann til skýringar. „En ég hef sæmilega sjón og get lesið enn þá. Ég les dagblöðin,“ segir hann kankvís.

Telja bæði að hitt ráði

Hjónin eru skriðin yfir á tíræðisaldur. Hann er níutíu og þriggja og hún níutíu og eins. Þau sjá alger lega um sig sjálf og íbúðin þeirra er í almennu fjölbýlishúsi. Bæði bera aldurinn vel og hlýtur að hafa liðið vel saman.

Þegar ég bið þau að lýsa ástinni er Ólöf fyrri til svars.

„Ég segi bara að ástin sé væntumþykja og umhyggja. Ég get ekki skilgreint hana öðruvísi. Ég veit ekki hvað hann segir.“

„Okkur Ólöfu Sigríði hefur alltaf komið vel saman af því að hún stjórnar mér sko,“ segir Hlöðver glettnislega.

Ólöf er ekki alveg á sama máli.

„Ég get sagt þér það að okkar hjónaband hefur enst þetta fyrir það að hann hefur ráðið og ég hef samþykkt. En það hefur alltaf komið gott út úr því og þetta hefur blessast hjá okkur.“ „Ég var mikið í stjórnun í vinnunni, kannski hef ég gleymt mér stundum og viljað stjórna frúnni líka,“ viðurkennir Hlöðver.

„Ég hafði svo mikið að gera en hún sá alveg um krakkana og heimilið og gerði það af miklum myndarskap.“

Ég spyr hvort það sé ekki bara jafnræði með þeim.

„Jú, það er það náttúrlega,“ segir hún. „Samkomulagið hefur alltaf verið gott hjá okkur. En ef ég tala hátt núna, því hann Hlöðver heyrir illa, þá heldur hann að ég sé að skamma sig, en það er alls ekki þannig því ég kann ekki að rífast og hef aldrei getað það.“

Hlöðver og Ólöf eru bæði Reyðfirðingar. Þau byrjuðu búskapinn haustið 1948 í 50 fermetra íbúð á Reyðarfirði sem Hlöðver byggði við hús foreldra sinna.fréttablaðið/anton brink

Búin að baka til jólanna

Áður en varir eru komnir postulínsbollar á dúkað borð, kaffi og meðlætið ekki af verri endanum, pönnukökur, jólakaka, vanilluhringir og fleiri fínar smákökusortir. Allt úr smiðju húsfreyjunnar.

„Ég bakaði pönnsurnar í gær. Þeir komu hingað hann Sigurður Arnarson, prestur í Kópavogskirkju, og Guðmundur sóknarnefndarformaður með jólaskreytingu handa mér og þakkarskjal fyrir það sem ég hef gert fyrir kirkjuna. Ég gekkst fyrir því að halda basara bæði í fyrra og núna til að safna fyrir viðgerðum á kirkjugluggunum. Við vorum margar sem hjálpuðumst að. Ég saumaði fimmtán svona svuntur eins og ég er með og gerði tvo stóra aðventukransa úr brauði. Sat líka við í allt sumar í rigningunni og vann fyrir basarinn. Það er komið á aðra milljón sem safnast hefur fyrir muni og líka kaffi og vöfflusölu sem annar hópur sá um, ég keypti jarðarber og sauð sultu úr þeim á vöfflurnar. Það er allt hægt.“

Þegar ég furða mig á orkunni sem þessi fullorðna kona er gædd segir hún:

„Ég er bara búin að þurfa að vinna frá því ég stóð fyrst í fæturna en það er auðvitað margt búið að henda mig í lífinu, veikindi og annað.“

Hún upplýsir að hún hafi þurft að fara í fjórar aðgerðir á tveimur árum, meðal annars út af krabbameini, einnig hafi hún tvívegis fengið blóðtappa gegnum höfuðið.

„Ég get ekki lyft annarri öxlinni út af þeim fyrri en þegar hinn var á ferðinni í vor komst ég svo fljótt til læknis að það náðist að bjarga mér. Það enti samt með því að það var settur í mig gangráður, við hjón erum bæði með gangráða, svo það hallar ekki á.“

Þau hjón eignuðust fjögur börn sem öll eru á lífi, Baldur Arnar, Hallgerði Björk, Jóhann Guðna og Steinþór.

„Strákarnir búa allir hér á höfuðborgarsvæðinu en dóttirin í Noregi. Baldur er að verða sjötíu og tveggja,“ segir Hlöðver og bætir við hlæjandi.

„Nú er maður að treina í sér líftóruna þar til maður er búinn að koma krökkunum á elliheimili!“ Hann segir afkomendurna nálgast fjórða tuginn.

„Við eigum fjögur langalangafa- og ömmubörn. Krakkarnir eru fínir, allir saman.“

„Já, við erum lánssöm með hópinn okkar,“ tekur Ólöf undir. „Það er ekki til meira lán en barnalán.“

Urðu að taka til hendinni

Ólöf og Hlöðver eru Reyðfirðingar bæði, hann ólst upp í þorpinu, hún á bænum Svínaskála í Helgustaðahreppi. Hann gekk í barna- og unglingaskóla Reyðarfjarðar en í sveitinni hjá henni var farskóli.

„Ég fékk ekki mikla menntun, samanlagt var mín skólaganga eitt ár,“ lýsir hún. „Mig langaði afskaplega mikið að fara í skóla en mamma dó þegar ég var sextán ára eftir mikil veikindi og ég og eldri systir mín urðum að taka til hendinni heima. Við áttum þrjú yngri systkini og pabbi var með búskap en fljótlega skiptumst við á að fara í vinnu annars staðar.“

Hlöðver kveðst hafa farið á síldveiðar að sumarlagi þegar hann var sextán ára og haldið því áfram næstu sumur en keypt sér vörubíl tvítugur og tekið bílpróf. Í framhaldinu svo bætt við sig meiraprófi og réttindum til ökukennslu og alls útskrifað 64 bifreiðastjóra.

„Aðalstarf mitt var hjá Vegagerðinni sem bifreiðastjóri og vélamaður, svo var ég umsjónarmaður áhaldahússins í allmörg ár, það voru góð ár.“

Fleiri störf bættust við, að hans sögn, svo sem löggæsla á dansleikjum og slökkvistörf, einnig bókhald í verkstjórn í söltunarstöðinni Öldunni sem hann átti helmingshlut í.

„Það var ýmislegt sem ég tók mér fyrir hendur og vann oft langan vinnudag, var líka í félagsmálum, til dæmis í slysavarnasveitinni. Fór meðal annars upp á hálendið að leita að flugvélinni Geysi sem brotlenti á Bárðarbungu í september 1950, við fengum skilaboð í talstöð um að hún væri fundin.“

Þau hjón byrjuðu búskapinn haustið 1948 í 50 fermetra íbúð á Reyðarfirði sem Hlöðver hafði byggt við hús foreldra sinna haustin áður, eftir síldveiðarnar.

„Við fluttum inn með Baldur eins árs og tvö börn bættust við áður en við komumst í stærra hús sem við byggðum yfir okkur,“ rifjar Ólöf upp.

Hún kveðst hafa hreinsað allt mótatimbrið, ásamt Baldri sem þá var fjórtán ára, og staflað því upp, yngri börnin tvö hafi verið að leika sér í kring um þau. Það fjórða hafi svo fæðst í nýja húsinu. Mörgu þurfti að sinna. Ólöf fræðir mig um að ekki hafi verið hægt að kaupa mjólk á Reyðarfirði fyrstu búskaparár þeirra hjóna. Því hafi þau verið með kú í mörg ár.

„Ég varð að fara í fjós og mjólka og vinna úr mjólkinni og líka heyja handa kúnni, Hlöðver var alltaf í Vegagerðinni.“

Leiðist aldrei

Það var svo árið 1972 sem þau Hlöðver og Ólöf fluttu austan af fjörðum í Kópavoginn. Hann hélt áfram að vinna hjá Vegagerðinni til 72 ára aldurs og Ólöf starfaði á ýmsum stöðum, svo sem í Brauði í Auðbrekkunni, á kaffistofu Myllunnar og í eldhúsinu í Sunnuhlíð.

„Síðast vann ég í matreiðslu í Jöfri en hætti þegar ég varð 67 ára. Eftir það tók sumarbústaðurinn sem við byggðum í Miðfellslandi á Þingvöllum við kröftum mínum og lóðin kringum hann. Ég hef óskaplega gaman af ræktun.“

Hún kveðst alltaf hafa haft yfirdrifið nóg að gera, þannig sé það enn og henni leiðist aldrei.

„Nú fæ ég orðið stúlku hingað hálfsmánaðarlega til að þvo gólfið. Það hittist þannig á um daginn að ég var að baka smákökur þegar hún kom. Hún spurði mig hvað ég hefði gert um ævina. Ég sagði bara „spurðu mig hvað ég hafi ekki gert!“.“

Hlöðver fer hægar um en Ólöf, en heldur andlegum kröftum, skrifar niður fróðleik með sinni fallegu rithönd og iðkar grúsk í lítilli bókastofu nærri útidyrum sem er jafnframt sjónvarpsstofa heimilisins.

Að endingu forvitnast ég um hvernig þau hjón ætli að halda upp á sjötíu ára brúðkaupsafmælið á annan í jólum. Ólöf svarar að bragði:

„Við verðum hér heima og fjölskyldan er velkomin hingað ef hún vill. Það verður opið hús.“

„Þarna heyrir þú hver stjórnar,“ segir Hlöðver kíminn. „Hún er drottning heimilisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×