Lífið

Vilja gera axarkast að keppnisgrein á Íslandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elvar Ólafsson, annar stofnenda Berserkja axarkasts.
Elvar Ólafsson, annar stofnenda Berserkja axarkasts. Mynd/Vilborg Friðriksdóttir
Stofnendur Bersekja axarskasts stefna nú að því að gera axarkast að keppnisíþrótt hér á landi með það að markmiði að senda íslenska keppendur til að keppa á alþjóðlegum mótum.

Elvar Ólafsson, annar stofnenda Berserkja, segir að til að það markmið náist sé nauðsynlegt að byggja íþróttina upp. „Við viljum vera með reglulegar æfingar og formlegar deildarkeppnir. Til þess þarf fjármagn og erum við byrjuð að safna á Karolina Fund þar sem hægt er að styrkja verkefnið.“

Elvar stofnaði fyrirtækið Berserki axarkast fyrr á árinu ásamt mágkonu sinni, Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur. „Við köstuðum bæði okkar fyrstu öxum erlendis á síðasta ári, ég í vinaferð í Kanada og Helga Kolbrún á Nýja Sjálandi þar sem hún var í keppnisferð í bogfimi. Við fundum strax á okkur að þetta væri eitthvað sem Íslendingar gætu haft mjög gaman af og ákváðum við að stofna fyrirtæki sem bjóði fólki að koma í axarkast.“

Helga Kolbrún Magnúsdóttir.Mynd/Vilborg Friðriksdóttir

Átta hundruð manns

Hann segir að ekki hafi tekið langan tíma að finna húsnæði, koma upp brautum og fá tilskilin leyfi hjá yfirvöldum. „Fyrstu viðskiptavinirnir komu í maí og síðan þá hafa rúmlega átta hundruð manns komið til okkar. Við höfum bæði verið að taka á móti einstaklingum og hópum og er þetta orðið sérstaklega vinsælt hópefli hjá fyrirtækjahópum og fyrsta stopp í steggjunum og gæsunum,“ segir Elvar, en fyrirtækið er til húsa í Hjallahrauni 9 í Víkingabænum Hafnarfirði.

Elvar segir að í húsnæði Berserkja sé að finna tvær brautir sem hvor um sig hafi tvö skotmörk. Geti því allt að 24 manns keppt á sama tíma, tólf á hvorri braut. „Uppbygging brautanna er samkvæmt alþjóðlegum reglum hvað varðar öryggi, keppnisfyrirkomulag og stigagjöf. Byrjað er á því að fara yfir öryggisatriði og kennslu og svo er farið í létta keppni,“ segir Elvar.

Hann bendir á að axarkast hafi tíðkast á Íslandi í nokkurn tíma og þá helst í tengslum við Skógarleikana í Heiðmörk og Víkingahátíðina í Hafnarfirði. Núna sé hins vegar hægt að stunda þetta inni allt árið um kring. Hann vonast því eftir stuðningi fólks í Karolina fund til að koma deildarkeppnum á laggirnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×