Íslenski boltinn

Spezia ekki gert nýtt tilboð í Willum Þór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Willum Þór á ferðinni gegn Fjölni í sumar.
Willum Þór á ferðinni gegn Fjölni í sumar. vísir/bára
Pepsi-deildarliði Breiðabliks hefur ekki borist nýtt tilboð frá ítalska B-deildarliðinu Spezia í miðjumaninn unga Willum Þór Willumsson, að sögn Eysteins Péturs Lárussonar, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Fótbolti.net greindi frá því í nóvember að Blikar höfnuðu tveimur tilboðum í Willum frá Spezia en Kópavogsfélagið bjóst við því að fá þriðja tilboðið í miðjumanninn tvítuga í desember.

„Við áttum von á tilboði núna í desember en það hefur ekkert borist þannig það hefur ekkert gerst í þessu. Hann er bara leikmaður Breiðabliks í dag sem er frábært því Willum er frábær leikmaður,“ segir Eysteinn við Vísi.

Willum Þór fór á kostum með Blikum í sumar og var kjörinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Hann skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar í Pepsi-deildinni og átti stóran þátt í því að liðið varð í öðru sæti.

Spezia fékk til sín Svein Aron Guðjohnsen frá Breiðabliki í sumar en liðið er í níunda sæti B-deildarinnar eftir fimmtán umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×