Enski boltinn

Souness: Miðjan hjá Liverpool er á gönguhraða

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wijnaldum er ekki nógu fljótur á fótunum segir Souness
Wijnaldum er ekki nógu fljótur á fótunum segir Souness vísir/getty
Liverpool er enn ekki farið að spila á sinni bestu getu í ensku úrvalsdeildinni að mati knattspyrnusérfræðingsins Graeme Souness.

Ótrúlegt sigurmark á 96. mínútu frá Divock Origi tryggði Liverpool stigin þrjú í grannaslagnum við Everton eftir mistök Jordan Pickford í markinu.

Flestir stuðningsmenn Liverpool munu lifa á ótrúlegum sigrinum langt inn í vikuna en það gerir fyrrum leikmaður þeirra, Souness, ekki.

„Það er erfitt að vera gagnrýninn á gengi Liverpool í deildinni en þeir eru ekki að spila á fullu gasi,“ sagði Souness á Sky Sports í gær.



Klippa: FT Liverpool 1 - 0 Everton


„Mér finnst mikið af vandamálum þeirra koma frá miðjunni. Í sumar þá náði Klopp í tvo miðjumenn en vildi þann þriðja, Nabil Fekir frá Lyon. Ég er ekki viss um að Fabinho og Naby Keita bæti það sem hann átti fyrir.“

„Síðasta vetur var miðja skipuð James Milner, Georginio Wijnaldum og Jordan Henderson. Þeir unnu boltann snemma, komu honum í sókn snemma og framherjarnir þrír þutu fram. Núna er þetta á meiri gönguhraða, þeir vinna boltann en það er auka snerting eða sending.“

„Þeir þurfa að koma boltanum hraðar á framlínuna og þá geta þeir farið á fulla ferð áfram. En eins og er eru þeir ekki á sama stað og í fyrra.“

Liverpool er enn án taps í ensku deildinni og er tveimur stigum frá toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×