Skoðun

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða

Silja Bára Ómarsdóttir skrifar
Í dag, 5. desember er haldið upp á alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Þú vissir þetta kannski ekki, því störf sjálfboðaliða komast ekkert sérstaklega oft í fréttirnar. Engu að síður eru þetta störf sem gjörbreyta samfélaginu að svo mörgu leyti. Sjálfboðaliðar starfa í þágu ýmissa félaga og samtaka, að góðgerðarmálum, íþróttum, tómstundum og mannúðarstarfi. Það er á þessu síðasta sviði sem nærri 4000 manns starfa á vegum rúmlega 40 deilda Rauða kross Íslands víðs vegar um landið en hugmyndin um sjálfboðið starf er ein af sjö grundvallarhugsjónum Rauða krossins á alþjóðavísu.

Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri, fólk í námi, starfi og á eftirlaunaaldri. Fólk hefur ólíkar ástæður til að vinna störf í sjálfboðavinnu, en íslenskar rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst að vilja leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins, vinna að verðugu málefni og hjálpa þeim sem minna mega sín.

Á meðal verkefnanna eru nokkur sem eru vel þekkt, eins og Frú Ragnheiður og Konukot. Önnur eru ekki jafn þekkt en engu minna mikilvæg. Sjálfboðaliðar vinna með umsækjendum um alþjóðlega vernd, kenna nýjum íbúum landsins íslensku og hjálpa þeim að skilja samfélagið. Í kvennadeildum er prjónað á ungabörn og margir flokka og selja föt sem annars færu í ruslið. Fólk og hundar á vegum Rauða krossins heimsækja eldri borgara og sporna gegn félagslegri einangrun. Börn fá aðstoð við heimanám. Fólk sem hefur nýlokið afplánun refsivistar fær aðstoð við að byggja upp sjálfstraust, færni og ferilskrár.

Verkefnin taka mið af þörfum hvers samfélags en þess utan hefur Rauði krossinn lögbundið hlutverk í neyðarvörnum og útvegar sjálfboðaliða til að veita fjöldahjálp og félagslega aðstoð í kjölfar neyðarástands. Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni RKÍ væri íslenskt samfélag veikara og fátækara. Líttu í kringum þig í dag og þakkaðu þeim sem þetta gera.

Höfundur er stjórnarmaður í Rauða krossinum




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×