Körfubolti

Helenu vantaði aftur bara eina stoðsendingu í einstaka þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Daníel
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, var ótrúleg nálægt því að ná þrefaldri tvennu í leiknum á móti Bosníu í Laugardalshöllinni í gær.

Helena endaði leikinn með 22 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar. Hildur Björg Kjartansdóttir var líka farin að nálgast þrennuna í leiknum en miðherjinn var með 27 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar í leiknum.

Þessar tvær frábæru körfuboltakonur voru því saman með 49 stig, 25 fráköst og 16 stoðsendingar í Höllinni í gær.

Helena var komin með fimm stoðsendingar strax eftir fyrsta leikhluta og sjö stoðsendingar í hálfleik en hún hélt áfram að skapa fjölda færa fyrir liðsfélaga sína í seinni hálfleiknum sem náðu bara ekki að nýta skotin sín nægilega vel.

Þetta er í annað skiptið í undankeppninni sem Helenu vantar aðeins eina stoðsendingu í þrennuna en í fyrsta leiknum á móti Svartfjallalandi þá var hún með 18 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.

Samkvæmt tölfræðivef undankeppninnar á heimasíðu FIBA náði enginn leikmaður þrennu í undankeppninni.

Helena er ofarlega á tölfræðilistunum. Hún endaði í 3. sæti í stigaskori með 22,7 stig í leik og varð í 4. sæti í stoðsendingum með 5,8 í leik. Helena varð ennfremur fjórtándi frákastahæsti leikmaður undankeppninnar með 8,5 í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×