Körfubolti

Ingi Þór um Helga Magg: „Við tökum vel á móti honum“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR í Dominos-deild karla, segir að liðið muni styrkjast enn frekar í janúar en Helgi Magnússon mun ganga í raðir liðsins í janúar.

Á dögunum gekk Kristófer Acox í raðir KR en hann hafði leikið í Frakklandi það sem af er vetri. Einnig hefur hinn uppaldi Finnur Atli Magnússon gengið í raðir KR.

„Þetta er mikill styrkur. Við erum að fá í stöður undir körfunni; fyrst Finnur og nú Kristófer. Við erum mjög ánægðir með það,“ segir Ingi sem segir að stefnan sé klárlega sett á toppinn eftir þennan liðsstyrk:

„Við ætluðum að gera það hvort er en það er enign spurning að þetta hjálpar okkur. Það er mikil reynsla og þekking í þessum mönnum. Við erum mjög sáttir og núna er það okkar að búa til lið úr þessu.“

Helgi Már Magnússon er sagður vera á leið í KR um áramótin og Ingi staðfesti það.

„Hann var í heimsókn í vikunni og lítur ljómandi vel út kallinn. Þar er mikill leiðtogi og það er fengur fyrir klúbbinn að fá hann inn. Við erum mjög spennt að fá alvöru KR-inga inn. Við tökum vel á móti honum.“

Ingi segir að deildin sé sterkari en oft áður. Í ár séu engin lið sem séu farþegar.

„Það eru mörg lið sem geta gert atlögu að titlinum en styrkleikinn er að það er enginn leikur auðveldur. Það hafa verið lið sem hafa verið vængbrotnari en önnur en í dag eru öll lið með massíf byrjunarlið.“

Innslagið í heild má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×