Innlent

Birti svör við „gildishlöðnum“ spurningum eftir að hann afþakkaði boð til Ísrael

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margeir Steinar Ingólfsson, betur þekktur sem DJ Margeir.
Margeir Steinar Ingólfsson, betur þekktur sem DJ Margeir. Mynd/Aðsend
Tónlistar- og athafnamaðurinn Margeir Steinar Ingólfsson, betur þekktur undir nafninu DJ Margeir, fann sig knúinn til að birta svör sín við spurningum ísraelsks blaðamanns á Facebook eftir að hann hafnaði boði um að spila á tónlistarhátíð í Ísrael. Margeiri þótti spurningarnar leiðandi og gildishlaðnar, en hann var m.a. spurður hvort honum fyndist að refsa ætti ísraelskum tónlistarmönnum fyrir gjörðir yfirvalda þar í landi.

Hafði áhyggjur af því að snúið yrði út úr svörunum

Margeir greindi frá því í færslu á Facebook-síðu sinni að hann hafi fengið boð um að spila á tónlistarhátíðinni International Music Showcase Festival sem haldin er í ísraelsku borgunum Tel Aviv og Jerúsalem en afþakkað boðið á grundvelli mannréttindastjónarmiða. Í kjölfarið hafði samband við hann blaðamaður hjá ísraelska fjölmiðlinum Walla og spurði hann út í áðurnefnda afstöðu sína.

Margeir ákvað að birta svör sín við spurningum blaðamannsins á Facebook þar sem honum þótti nauðsynlegt að koma þeim frá sér nákvæmlega eins og hann ritaði þau.

„Ég svaraði þeim [spurningunum], en þær voru það leiðandi og gildishlaðnar, að ég hef smá áhyggjur af því að reynt verði að snúa út úr svörum mínum og ég stimplaður sem „anti semitic“.“

 

Næstum of gott til að vera satt

Margeir segir í samtali við Vísi að einn upplýsingafulltrúi hátíðarinnar hafi komið honum í samband við umræddan blaðamann í gegnum tölvupóst. Þá hafi afrit af samskiptunum einnig verið sent á einstakling með netfang innan ísraelskrar stjórnsýslu og segist Margeir því ekki hafa getað tekið boðinu með góðri samvisku.

Ein spurning blaðamannsins var til að mynda á þessa leið: „Hvenær og af hverju ákvaðst þú að ísraelskum listamönnum ætti að vera meinaður aðgangur að alþjóðlegum tónlistarhátíðum?“

Hin ísraelska Netta Barzilai vann Eurovision í fyrra. Keppnin verður haldin í Tel Aviv á næsta ári og þykir mörgum að Ísland eigi að draga sig úr keppni, af sömu ástæðu og Margeir hafnaði boðinu á tónlistarhátíðina.Vísir/Getty
Margeir segir í svari sínu að hann hefði reyndar aldrei haldið því fram að banna ætti ísraelska listamenn. Þá hafi honum verið boðið að spila á tónlistarhátíðinni eftir að sendiráð Ísraels á Íslandi mælti með honum.

„Eftir nokkra íhugun ákvað ég að taka ekki boðinu, þó að það liti æðislega út og væri næstum of gott til að vera satt,“ skrifar Margeir.

„Ég bar eftirfarandi fyrir mig við neitun á boðinu: þar sem svo virðist sem ísraelska ríkisstjórnin sé tengd þessu boði/viðburði á einhvern hátt, get ég ekki tekið því vegna nýlegra atburða sem ratað hafa í heimsfréttirnar. Ísraelski herinn er að varpa sprengjum og drepa saklaus börn við friðsamleg mótmæli.“ Þessa afstöðu sína ítrekar Margeir jafnframt í samtali við Vísi.

Veit ekki til þess að viðtalið hafi verið birt

Blaðamanninum lék einnig forvitni á að vita hvað Margeiri þætti um tónlistarmenn á borð við Justin Bieber og Lady Gaga sem haldið hafa tónleika í Ísrael. Margeir segist sjálfur ekki dómbær á ákvarðanir umræddra listamanna og bendir á að sagan sé betri dómari í málum sem þessu.

Þá var Margeir spurður hvort honum fyndist að ísraelskum tónlistarmönnum ætti að vera refsað fyrir gjörðir ríkisstjórnarinnar og hvort að hann hefði sjálfur neitað ísraelskum tónlistarmönnum um að spila á sínum tónlistarhátíðum.

Spurningar blaðamannsins og svör Margeirs má nálgast í heild hér að neðan. Margeir segir í samtali við Vísi að hann viti ekki til þess að svör hans við spurningunum hafi verið birt á vef Walla.

Alþekkt er að tónlistarmenn hætti við að koma fram í Ísrael á grundvelli pólitískrar afstöðu sinnar. Þannig hefur tónlistarfólk á borð við Elvis Costello, Gorillaz og Lorde hætt við tónleika í landinu í gegnum árin, ýmist í kjölfar hernaðaraðgerða Ísraelsmanna á Gasa-svæðinu eða vegna þrýstings frá mannréttindasamtökum í Palestínu.

Þá verður Eurovision haldið í Tel Aviv í Ísrael á næsta ári en mikil umræða skapaðist í kringum þátttöku Íslands í keppninni eftir að ísraelska söngkonan Netta bar sigur úr býtum fyrir hönd þjóðar sinnar í maí. Margir hafa kallað eftir því að Ísland dragi sig úr keppni vegna framgöngu ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum en nú síðast tilkynnti söngvarinn og fyrrverandi Eurovisionfarinn Páll Óskar Hjálmtýsson að hann hygðist sniðganga keppnina með öllu á næsta ári.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir í Ísrael og á Gasa

Hernaðaryfirvöld Ísrael segjast hafa gert loftárárásir á um hundrað skotmörk á Gasa-ströndinni í nótt. Það var gert eftir að Hamas-liðar skutu um 370 flugskeytum að Ísrael í gær.

Páll Óskar ætlar alfarið að sniðganga Eurovision

"Ég fer í Eurovision þegar það kemur flott lag og ég hef ekki fengið inn lag sem kýlir mig kaldan,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson sem er áttundi gestur Einkalífsins en í þáttunum er rætt við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×