Fótbolti

Strákarnir æfðu á keppnisvellinum í morgun | Birkir æfði einn

Tómas Þór Þórðarson í Brussel skrifar
Erik Hamrén spjallar við strákana fyrir æfingu.
Erik Hamrén spjallar við strákana fyrir æfingu. vísir/tom
Íslenska landsliðið í fótbolta æfði á Stade Roi Badoin-vellinum í Brussel í morgun en þar fer leikurinn gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA fram annað kvöld.

Ljóst er að Birkir Bjarnason verður ekki með vegna meiðsla og því voru aðeins 22 sem æfðu í dag en Birkir Már Sævarsson æfði einn með Friðriki Ellert Jónssyni sjúkraþjálfara. Hann er tæpur fyrir leikinn á morgun.

Eins og vanalega var létt yfir strákunum okkar í Brussel í dag en eftir stutta tölu frá Erik Hamrén hófst æfingin með hefðbundinni upphitun sem stýrt var af Sebastian Boxleitner.

Þjóðarleikvangur Belganna er alls ekkert fyrir augað og í raun bara rosalega ljótur en menn eru hreinlega hissa á að eitt besta landslið heims spili á svona velli.

Búist er við ríflega 30.000 manns á leikinn á morgun en Belgarnir eru búnir að selja 30.000 miða og þá verða Íslendingarnir um 400. Völlurinn tekur 50.000 þannig það stefnir ekki í fullan völl annað kvöld.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 19.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×