Innlent

Ætla að greiða leið ungra og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ríkisstjórnin hyggst ráðast í sértækar aðgerðir til þess að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að festa kaup á íbúðarhúsnæði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem velferðarráðuneytið gaf frá sér í dag.

Í tilkynningunni segir að ríkisstjórnin hafi í dag samþykkt tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um skipun starfshóps sem ætlað er að útfæra aðgerðir sem nágrannaþjóðir Íslands hafi nýtt sér í þessu skyni, við góðan árangur.

Þá segir að ákvörðunin sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hvar kveðið er á um að farið verði í aðgerðir til þess að auðvelda ungum og tekjulágum einstaklingum að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Meðal úrræða sem væru til skoðunar sé nýting lífeyrissparnaðar í þessu skyni.

Samkvæmt tilkynningunni segir Ásmundur Einar tíma aðgerða vera að renna upp.

„Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd.“

Í tilkynningu stjórnarráðsins er sérstaklega litið til úrræða frá Sviss og Noregi en ætla má að fyrirhugaður starfshópur muni líta til fleiri landa í leit sinni að viðeigandi úrræðum.

Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×