Fótbolti

Skórnir á hilluna hjá Rafael van der Vaart

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rafael van der Vaart komst nálægt því að lyfta Heimsmeistaratitilinum 2010.
Rafael van der Vaart komst nálægt því að lyfta Heimsmeistaratitilinum 2010.
Hollenski knattspyrnumaðurinn Rafael van der Vaart, hefur ákveðið að láta gott heita á knattspyrnuvellinum, 35 ára að aldri.

Hann hefur undanfarin ár leikið í Danmörku, fyrst með Midtjylland og nú síðast Esbjerg en þessi fyrrum leikmaður Ajax, Real Madrid og Tottenham varði síðustu árunum á knattspyrnuferli sínum í að fylgja unnustu sinni á framabrautinni og er það meginástæðan fyrir því að hann spilaði í dönsku úrvalsdeildinni

Unnusta van der Vaart er hollenska handboltastjarnan Estavana Polman sem hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá Esbjerg og hollenska landsliðinu á undanförnum árum.

Rafael van der Vaart var aðeins unglingur þegar hann var kominn í stórt hlutverk hjá Ajax og var hann talinn einn allra efnilegasti leikmaður Evrópu á þeim tíma. Erfið hnémeiðsli snemma á ferlinum áttu hins vegar eftir hafa mikil áhrif á feril kappans.

Þó ferill hans hafi aldrei náð þeim hæðum sem búist var við lék van der Vaart um tíma með Real Madrid og Tottenham þó hann hafi lengstum dvalið hjá Hamburg SV í Þýskalandi.

Van der Vaart varð tvívegis Hollandsmeistari með Ajax í upphafi aldar en það voru hans einu landsmeistaratitlar. Þá var hann hluti af hollenska landsliðinu sem hafnaði í 2.sæti á HM í Suður-Afríku 2010.

Hann er fjórði leikahæsti leikmaðurinn í sögu hollenska landsliðsins með 109 landsleiki en aðeins hafa þeir Frank de Boer, Edwin van der Sar og Wesley Sneijder leikið fleiri leiki fyrir Holland.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×