Fótbolti

Jón Þór er nýr landsliðsþjálfari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Þór ásamt Ian Jeffs.
Jón Þór ásamt Ian Jeffs. vísir/vilhelm
Jón Þór Hauksson er nýr landsliðsþjálfari kvennaliðs Íslands í fótbolta. Hann var kynntur til leiks á blaðamannafundi í dag ásamt aðstoðarmanni sínum, Ian Jeffs.

Í sumar var Jón Þór aðstoðarþjálfari Rúnars Páls Sigmundssonar með karlalið Stjörnunnar við góðan orðstír. Þar áður hafði Jón stýrt ÍA í síðustu sex leikjum Pepsi deildar karla sumarið 2017. Það er jafn framt hans eina starf sem aðalþjálfari.

Skagamaðurinn Jón Þór er fæddur árið 1978, sem gerir hann fertugan. Hann spilaði aðeins 19 meistaraflokksleiki, flesta með Skallagrími, en hann hefur mikla reynslu af þjálfun yngri flokka á Akranesi. 

„Ég get ekki beðið eftir að byrja. Fylgst lengi vel með liðinu og þakklátur og stoltur að fá þetta tækifæri. Einnig ánægður að hafa fengið Ian Jeffs mér til aðstoðar sem er hæfur og reynslumikill,“ sagði nýráðni þjálfarinn.

Hann skrifaði undir tveggja ára samning sem er með sjálfkrafa framlengingu ef liðið kemst inn á næsta stórmót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×