Körfubolti

Lakers fyrstir til að leggja Denver Nuggets að velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
LeBron vann sinn fyrsta heimasigur með Lakers
LeBron vann sinn fyrsta heimasigur með Lakers vísir/getty
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru komnir á sigurbraut í NBA körfuboltanum en liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir að hafa tapað þremur fyrstu leikjunum.

Í nótt lágu Denver Nuggets í valnum en þeir voru taplausir í fyrstu fjórum leikjum sínum áður en kom að leiknum í nótt.  Lokatölur 121-114 fyrir Lakers. 

LeBron fór mikinn í leiknum; var stigahæstur Lakers manna með 28 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Serbneska tröllið Nikola Jokic var stigahæstur hjá Nuggets með 24 stig auk þess að taka 11 fráköst.

Oklahoma City Thunder er enn í leit að sínum fyrsta sigri á tímabilinu en liðið tapaði fyrir Boston Celtics á heimavelli í nótt, 95-101. Ungstirnið Jayson Tatum var stigahæstur með 24 stig.

Damian Lillard var magnaður þegar Portland Trail Blazers gerði góða ferð til Orlando þar sem Trail Blazers vann 14 stiga sigur á Orlando Magic, 114-128. Lillard skoraði 41 stig.

Þá hélt Detroit Pistons sigurgöngu sinni áfram þegar þeir fengu stigalaust lið Cleveland Cavaliers í heimsókn. Pistons vann sjö stiga sigur, 110-103 og eru búnir að vinna fyrstu fjóra leiki sína á meðan Cavaliers hefur tapað fyrstu fimm leikjum sínum. 

Andre Drummond skoraði 26 stig og tók 22 fráköst í liði Pistons og var stigahæstur ásamt Blake Griffin sem gerði líka 26 stig en sá síðarnefndi hirti einnig 10 fráköst.

Úrslit næturinnar

Detroit Pistons 110-103 Cleveland Cavaliers

Orlando Magic 114-128 Portland Trail Blazers

Oklahoma City Thunder 95-101 Boston Celtics

Los Angeles Lakers 121-114 Denver Nuggets

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×