Fótbolti

Táragasi beitt á áhorfendur á leik í Afríkukeppninni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Áhorfendur á leiknum í gær.
Áhorfendur á leiknum í gær. Vísir/EPA
Lögregla þurfti að beita táragasi á Kasarani leikvanginum í Kenýa þegar leikur heimamanna gegn Eþíópíu fór fram í Afríkukeppninni í gær.

Fyrir leikinn höfðu forráðamenn Kenýska knattspyrnusambandsins og ríkisstjórn landsins lagt mikla áherslu á að fá áhorfendur á völlinn og meðal annars var frítt á leikinn og boðið upp á rútuferðir á leikvanginn, enda leikurinn mikilvægur. 60.000 áhorfendur geta fylgst með leikjum á Kasarani leikvanginum.

Líklega var áherslan á fjölda áhorfenda fullmikil því algjört öngþveiti varð utan við leikvanginn áður en leikurinn hófst og var gripið til þess ráðs að loka hliðunum inn á völlinn.

Þeir sem mættir voru til þess að fylgjast með leiknum voru hins vegar ekki sáttir með þetta þrátt fyrir að fullsetið væri á pöllunum. Lögregla varð því að nota táragas til að ná stjórn á ástandinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af atburðunum utan við leikvanginn en heimamenn unnu 3-0 sigur í leiknum og eru í efsta sæti riðilsins, en auk Kenýu og Eþíópíu eru Ghana og Sierra Leone í sama riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×