Lífið

Hneykslaði með ummælum sínum um Bond, börn og karlmennsku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Piers Morgan hneykslaði marga með ummælum sínum um myndina af Daniel Craig sem sést hér til hægri.
Piers Morgan hneykslaði marga með ummælum sínum um myndina af Daniel Craig sem sést hér til hægri. Mynd/Samsett
Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur verið harðlega gagnrýndur á samfélagsmiðlum eftir að hann birti mynd af breska leikaranum Daniel Craig og ýjaði að því að karlmennska hans væri í bráðri hættu sökum þess að hann hélt á barni sínu.

Morgan birti myndina á Twitter-reikningi sínum í gær. Á myndinni sést Craig á göngu með nokkurra vikna gamla dóttur sína reyrða framan á sig. Við myndina skrifaði Morgan: „Ó, 007 .. ekki þú líka?!!!“ og bætti við myllumerkinu #emasculatedbond, sem þýða mætti á íslensku sem „ókarlmannlegur“ eða „kveifarlegur“ Bond. Craig fer með hlutverk njósnarans James Bond í kvikmyndaflokknum um ævintýri hans og hefur hlutverkið löngum verið talið eitt það „karlmannlegasta“ í Hollywood.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa en netverjar voru margir ósammála Morgan um að umönnun barna drægi úr karlmennsku, heldur þvert á móti sinntu „alvöru karlmenn“ börnum sínum til jafns við mæður þeirra. Á meðal þeirra sem svaraði Morgan fullum hálsi var bandaríski leikarinn Chris Evans, sem þangað til nýlega fór með hlutverk Captain America – annars holdgervings karlmennskunnar.

„Sá karlmaður sem eyðir tíma sínum í að mæla karlmennsku er sjálfur dauðhræddur inn við beinið,“ skrifaði Evans meðal annars.

Morgan er annar stjórnenda spjallþáttarins Good Morning Britain. Hann er óhræddur við að láta í ljós umdeildar skoðanir sínar á hinum ýmsu málum, við misjafnar undirtektir almennings.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×