Körfubolti

Pétur: Held að Grindavík hafi vanmetið okkur

Smári Jökull Jónsson í Röstinni skrifar
Pétur Ingvarsson er þjálfari nýliða Blika.
Pétur Ingvarsson er þjálfari nýliða Blika. Vísir/Anton
„Okkar leikur var þokkalegur, það gekk sumt upp sem við lögðum upp með og annað ekki. Þeir voru góðir þarna í lokin þegar við ætluðum að vera búnir að þreyta þá,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari nýliða Breiðabliks eftir tapið gegn Grindavík í Röstinni í kvöld.

Blikar sýndu mikla baráttu og pressuðu heimamenn duglega sem skilaði þeim forystu allt fram í 4.leikhluta.

„Við ætluðum að taka fast á móti þeim, spila hratt og reyna að koma þeim á óvart. Það tókst ágætlega framan af en þeir eru auðvitað með gott lið og þetta er góður heimavöllur,“ bætti Pétur við en það var fínasta mæting í Röstina í kvöld.

Grindavík tryggði sigurinn með 16-0 áhlaupi undir lokin og kom mörgum á óvart að Pétur skyldi ekki taka leikhlé á þeim tímapunkti. Hefði hann ekki átt að gera það?

„Ég skipti hratt inná og menn eru ekkert þreyttir. Þeir settu stóra þrista og auðvitað hefði maður kannski átt að taka leikhlé en ég gerði það ekki og þetta er niðurstaðan. Ég verð að lifa með því og reyna að læra eitthvað af þessu.“

Blikar leiddu löngum stundum í leiknum og komu eflaust mörgum á óvart með góðum leik. Pétur sagði þó ekkert vera breytt eftir leikinn í kvöld.

„Það skiptir engu máli hvernig við töpum, ef við töpum öllum leikjum tæpt þá töpum við samt öllum leikjunum. Við eigum eftir að vinna leik í deildinni og erum enn með núll sigra, það hefur ekkert breyst frá einhverjum spám. Ég held að Grindavík hafi vanmetið okkur framan af og þess vegna hafi þetta litið svona út.“

Það voru ekki margir sem bjuggust við að Breiðablik myndi veita Grindvíkingum hörkuleik hér í kvöld en annað kom á daginn. Hvað taka þeir jákvætt með sér eftir leikinn í kvöld?

„Það er í raun ekkert jákvætt og ekkert sérstaklega neikvætt. Við erum að reyna að bæta okkur og þetta var fyrsti leikurinn. Svo reynum við að lagfæra það sem illa fór í þessum leik og vera betur undirbúnir fyrir næsta leik, þarnæsta eða eftir jól eða hvernig sem það er. Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup,“ sagði Pétur að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×