Enski boltinn

Southgate segir dyrnar ekki lokaðar á Hart

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hart á enn möguleika á að leika fyrir England á ný.
Hart á enn möguleika á að leika fyrir England á ný. vísir/getty
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, segir að landsliðsferli Joe Hart sé ekki lokið en Hart var ekki valinn í landsliðshóp Englands fyrir leikina gegn Króatíu og Spáni í Þjóðadeildinni.

„Nei, alls ekki. Þetta er framhald af hópnum sem við völdum í síðasta mánuði,” sagði Southgate aðspurður hvort að landsliðsferli Hart væri lokið. Jack Butland og Jordan Pickford eru meðal fjögurra markvarða í hópnum.

„Jack byrjaði í markinu í síðasta leiknum hjá okkur svo að velja hann ekki þennan hóp útaf að hann leikur í B-deildinni væri ekki viðeigandi að mínu mati.”

Hart færði sig yfir til Burnley í sumar en þar hefur hann farið á kostum í upphafi tímabils.

„Við þurfum ekki að sjá hvernig Joe spilar í leik að þessari stærðargráðu til að sjá hvað hann getur. Fyrir hann að fara til Burnley hefur greinilega virkað. Hann virkar með sjálfstraust.”

Alex McCarthy, markvörður Southampton, og Marcus Bettinelli, markvörður Fulham, eru í hópnum ásamt Butland og Pickford en Southgate segir að þetta séu ekki endalok Hart.

„Við erum að kíkja á yngri markverði sem við verðum að vita meira um. Pickford gerði frábærlega í sumar en það er langt frá því að Hart eigi ekki leið inn í hópinn,” sagði Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×