Íslenski boltinn

Magni áfram í Inkasso eftir dramatík í Breiðholti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Páll Viðar er stjórinn á Grenivík.
Páll Viðar er stjórinn á Grenivík. vísir/vilhelm
Magni frá Grenivík mun spila áfram í Inkasso-deild karla á næstu leiktíð eftir 3-2 sigur á ÍR í hreinum úrslitaleik um sæti í Inkasso-deildinni að ári.

Selfyssingar voru fallnir fyrir leikinn en í Breiðholtinu mættust Magni og ÍR. ÍR dugði jafntefli en Magnamenn þurftu sigur til þess að halda sér uppi.

Gunnar Örvar Stefánsson kom Magna yfir á sjöttu mínútu en Andri Jónasson jafnaði á nítjándu mínútu.

Það var þremur mínútum síðar sem Ágúst Frey Hallsson kom ÍR yfir áður en Gunnar Örvar skoraði annað mark sitt og Magna fjórum mínútum fyrir hálfleik.

Það var svo tólf mínútum fyrir leikslok er Sigurður Marinó Kristjánsson tryggði Magnamönnum sigur og veru áfram í Inkasso-deildinni á næstu leiktíð. Magnaðir Magnamenn.

ÍR er því á leið í aðra deildina ásamt Selfyssingum sem töpuðu 2-1 fyrir Njarðvík á útivelli. Nýliðarnir í Njarðvík enduðu í sjötta sæta deildarinnar en Selfoss á botninum.

Víkingur Ólafsvík vann 2-1 sigur á Fram. Ólsarar enda í fjórða sæti deildarinnar með 42 stig en Fram í áttunda sætinu með 24 stig.

Þór vann svo 3-1 sigur á Leikni fyrir norðan þar sem Leiknismenn voru einum færri frá lokamínútu fyrri hálfleiks. Þór endar í fjórða sætinu en Leiknir í sjöunda sætinu.

Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×