Lífið

Skoða möguleika á aukatónleikum með Ed Sheeran

Birgir Olgeirsson skrifar
Ed Sheeran á tónleikum.
Ed Sheeran á tónleikum. Vísir/Getty
Sena skoðar möguleika á því að halda aukatónleika með Ed Sheeran á Laugardalsvelli. 30 þúsund miðar á tónleikana í ágúst á næsta ári seldust upp á rúmum tveimur tímum í morgun. Eftirspurnin var svo mikil að Sena þurfti að vísa rúmlega 15 þúsund manns frá sem voru í stafrænni biðröð eftir miðum. Voru margir afar svekktir með að fá ekki miða.

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu, segir í samtali við Vísi að það séu engar samningaviðræður í gangi við fyrirtækið sem sér um Ed Sheeran, en þeir séu meðvitaðir um þennan gífurlega áhuga á breska tónlistarmanninum hér á landi og er verið að skoða hvort það sé mögulegt að halda aukatónleika, en ansi margt þyrfti að ganga upp.

Ísleifur segir við Vísi að miðarnir hafi allir farið í sölu, tæplega þrjátíu þúsund talsins, og ekki hafi verið í myndinni að leyfa aðilum að kaupa fjölda miða í einu því það fari gegn stefnu Sheerans sem er í persónulegri herferð gegn miðabraski.

Framkvæmdastjórinn segir þetta fáheyrð tíðindi enda hafi aldrei áður tæplega þrjátíu þúsund miðar selst á tónleika hér á landi.


Tengdar fréttir

Ed Sheeran hræðir ekki Fiskidagsfólk

Skiptir engu máli, segir framkvæmdastjórinn þó 30 þúsund hafi keypt miða á tónleikana á Laugardalsvelli sem verða sama dag og Fiskidagurinn mikli á Dalvík.

Uppselt á Ed Sheeran

Ed Sheeran tónleikarnir sem fara fram 10. ágúst 2019 á Laugardalsvelli seldust upp með hraði í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu Live.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×