Íslenski boltinn

Gulli Gull ætlar alls ekki að hætta: Fótbolti og fjölskyldan er líf mitt

Þór Símon skrifar
Gulli er ekkert að fara hætta.
Gulli er ekkert að fara hætta. vísir/bára
„Fyrstu viðbrögð eru auðvitað að óska Val til hamingju með titilinn. Besta lið landsins og verðskuldað meistarar,“ sagði kátur Gunnleifur Gunnleifsson, eða Gulli Gull, markmaður Breiðabliks eftir 4-0 sigur liðsins á KA í lokaumferð Pepsi deildarinnar.


„Það eru alltaf margar tilfinningar í gangi eftir lokaleik sumarsins. Við erum mjög sáttir með tímabilið. Vorum nálægt þessu í báðum keppnum og getum verið stoltir af okkur,“ sagði Gulli en Breiðablik nældi í silfrið bæði í deild og bikar.


En ætlar Gulli að halda áfram að standa á milli stangana næsta sumar?


„Það er planið,“ sagði Gulli hlægjandi en hann varð 43 ára núna í júlí og hækkar meðalaldur deildarinnar vægast sagt. En er þá ekki kominn tími til að hætta þessu bara?


„Veistu hvað þetta er gaman? Þetta er líf mitt. Fótbolti og fjölskyldan. Ég elska þetta og mun halda áfram eins lengi og ég get,“ sagði Gulli en þrátt fyrir háan aldur er hann að margra mati besti markvörður deildarinnar. 


Á dögunum missti hann af sínum fyrsta leik síðan 2012 í Pepsi deildinni vegna leikbanns. Ætlar hann þá að spila til fimmtugs til að ná upp slíkri röð leikja aftur?

„Ég er ennþá að pirra mig á því [að missa út leik]. Fyrir rautt spjald líka. Við þurfum að sjá til en byrjum bara á næsta sumri,“ sagði hin síungi Gulli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×