Íslenski boltinn

Ólafur Páll: Okkar besti leikur í mjög langan tíma

Smári Jökull Jónsson á Grindavíkurvelli skrifar
Ólafur Páll var ánægður með sína menn í dag.
Ólafur Páll var ánægður með sína menn í dag. vísir/bára
„Við leggjum þessa síðustu þrjá leiki núna sem lífsnauðsynlega og við þurftum að sigra í dag og það gekk eftir. Við þurftum að standa af okkur ágætis pressu frá þeim og það gekk eftir sömuleiðis. Þetta var okkar besti leikur í mjög langan tíma,“ sagði Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnismanna eftir sigurinn á Grindavík í Pepsi-deildinni í dag.

„Það var kannski ekki liðsræðan en við gerðum það sem við ætluðum okkur að gera, að setja pressu á þá í byrjun. Við vorum klaufar að skora ekki fleiri mörk og við héldum þeim inni í leiknum. Við áttum að skora tvö mörk í viðbót sem við gerðum ekki og þar af leiðandi var þetta spennandi í lokin.“

Fyrsta pressa Fjölnismanna gekk vel í dag og Grindvíkingum gekk illa að spila boltanum út úr vörninni.

„Við vissum að þeir vilja spila fótbolta út frá öftustu mönnum. Við fundum leiðir til að vinna boltann hátt uppi á vellinum og það gekk eitthvað aðeins. Við komum þeim kannski pínu á óvart með því,“ bætti Ólafur Páll við.

Fyrir leikinn voru Fjölnismenn 5 stigum frá öruggu sæti í deildinni en nálguðust Víkinga með sigrinum í dag.

„Það var lífsnauðsynlegt að ná í sigur og það hefði verið mjög þungt að fara héðan með ekki neitt eða eitt stig.“

Það kom eilítið á óvart að Birnir Snær Ingason byrjaði á bekknum hjá Fjölnismönnum í dag en hann er af mörgum talinn besti maður liðsins.

„Hann hefur ekki staðið sig nægilega vel upp á síðkastið að mínu mati og það er ástæðan fyrir því að hann er á bekknum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×