Lífið

Katrín Tanja selur miðbæjarslotið

Benedikt Bóas skrifar
Katrín vill búa nær Annie Mist.
Katrín vill búa nær Annie Mist. vísir/getty
CrossFitstjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur sett íbúð sína á Lindargötu 39 á sölu og var opið hús hjá henni í gær. Katrín Tanja setur 69,5 milljónir á íbúðina en hún er á sjöttu hæð með suðursvölum og glæsilegu útsýni yfir miðbæinn.

Íbúðin er skráð alls 98 fermetrar, þar af er um átta fermetra sérgeymsla í sameign. Að sjálfsögðu fylgir sérmerkt bílastæði í lokaðri bílageymslu. Í lýsingunni á fasteignavef Fréttablaðsins kemur fram að í húsinu séu alls 36 íbúðir en á hæðinni þar sem Katrín Tanja hefur hreiðrað um sig séu fjórar íbúðir. Íbúðin skiptist í anddyri, hol, stofu, borðstofu, eldhús, tvö svefnherbergi og þvottahús.

Katrín lét sérsmíða innréttingar hjá GKS trésmiðju og er íbúð hennar loftræst með vélrænu útsogi og innblæstri á upphituðu lofti. Full lofthæð er fyrir Katrínu um það bil 2,7 metrar, nema þar sem eru niðurtekin loft. Katrín Tanja er með rúmar 1,3 milljónir fylgjenda á Instagram og deilir oft því sem hún borðar enda borða trúlega fáir hollara fæði en hún. Það kemur því ekki á óvart að hún sé með Miele-tæki, bæði spanhelluborð og ofn í vinnuhæð.

Katrín keypti íbúðina í janúar í fyrra og birti mynd af sér á Instagram þegar hún kom í fyrsta sinn í íbúðina. Sagði hún við það tilefni að allir hennar nánustu hefðu komið með sér enda gæti hún ekki ákveðið íbúðarkaup svona alein. Hún hefði þó fallið strax fyrir íbúðinni enda einstök kvöldsól á svölunum og útsýni yfir miðborgina.

En nú er miðbæjarástinni lokið. Katrín auglýsti íbúðina sína á samfélagsmiðlinum í gær og sagðist vilja búa við hliðina á Annie Mist Þórisdóttur. Hún býr í Kópavogi og fetar Katrín Tanja því í fótspor margra ungra Reykvíkinga. Sem flýja borgina.

Hér að neðan má sjá Katrínu Tönju þegar hún keypti íbúðina. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×