Fótbolti

Sölumaður, námsmaður, futsal markvörður og internet stjarna í liði Dana í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið danska landsliðsins í gær.
Byrjunarlið danska landsliðsins í gær. Vísir/EPA
Dönsku landsliðsmennirnir í vináttulandsleiknum á móti Slóvakíu í gærkvöldi hafa örugglega aldrei látið sig einu sinni dreyma um að fá að spila með danska landsliðinu á þessum tímapunkti í sínu lífi.

Allt getur hins vegar gerst í fótboltanum. Tækifæri þeirra bauðst óvænt í vikunni og þeir gætu jafnvel spilað annan leik á móti Wales í Þjóðadeildinni um helgina.

Landsliðsmenn Dana eru nefnilega í verkfalli vegna deilna sína við danska knattspyrnusambandið um ímyndarétt og danska sambandið gat ekki fengið leikmenn, úr tveimur efstu deildunum eða leikmenn sem spila erlendis, til að spila þennan leik.

Í staðinn var kallað í leikmenn úr neðstu deildunum og þá fengu nokkrir Futsal leikmenn líka landsleik í Slóvakíu í gær. Slóvakí burstaði þó ekki leikinn heldur vann „bara“ 3-0.





Það er samt athyglisvert að skoða aðeins betur hvaða leikmenn þetta voru og BBC hefur einmitt gert það. Þeir nefna til sérstaklega fjóra leikmenn úr danska liðinu í gær.

Christian Offenberg var fremsti maður hjá Dönum í gær en hann er sölumaður í hlutastarfi sem spilar með C-deildarliði Avarta í Danmörku.

Hægri bakvörðurinn Simon Vollesen spilar í E-deildinni í Danmörku og er námsmaður. Það er magnað að leikmaður úr fimmtu deild fá A-landsleik en það gerðist í gær.

Miðjumaðurinn Rasmus Johansson er aftur á móti internet stjarna en hann er þekktur fyrir sýna allskonar tilþrif með boltann og er með þúsundir fylgjenda á bæði Instagram og YouTube.

Í markinu stóð Futsal markvörðurinn Christoffer Haagh sem hafði nóg að gera en varði sjö af tíu skotum sem á hann komu.

Danska liðið náði aðeins einu skoti á markið í leiknum og var bara með boltann í 27 prósent af leiktímanum.

Adam Nemec og Albert Rusnak komu Slóvakíu í 2-0 í leiknum en þriðja markið var sjálfsmark hjá futsal leikmanninum Adam Fogt sem hafði komið inná sem varmaður.

Leikurinn á móti Wales í Þjóðadeildini er í Arósum á sunnudaginn. Þar fá þessi ólíklegu landsliðsmenn mögulega það verkefni að reyna að stoppa Gareth Bale og Aaron Ramsey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×