Íslenski boltinn

Hafa alltaf unnið í Garðabænum síðan Ólafur tók við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafi Jóhannessyni hefur gengið vel í Garðabænum síðan hann tók við Val fyrir fjórum árum.
Ólafi Jóhannessyni hefur gengið vel í Garðabænum síðan hann tók við Val fyrir fjórum árum. Fréttablaðið/Ernir
Tvö efstu lið Pepsi-deildar karla, Stjarnan og Valur, mætast á Samsung-vellinum í kvöld. Valsmenn eru með þriggja stiga forskot á Stjörnumenn og stíga stórt skref í áttina að því að verja Íslandsmeistaratitilinn með sigri í kvöld. Vinni Garðbæingar tylla þeir sér hins vegar á topp deildarinnar.

Síðan Ólafur Jóhannesson tók við Val hefur liðið unnið alla þrjá deildarleiki sína gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum. Í stjórnartíð Ólafs hafa Valur og Stjarnan mæst átta sinnum í deild og bikar. Valsmenn hafa unnið fjóra leiki, Stjörnumenn tvo og tveir endað með jafntefli. Fyrri deildarleikur liðanna í sumar fór 2-2.

Valsmenn hafa verið á afar góðu skriði að undanförnu og eru taplausir í síðustu tólf deildarleikjum sínum. Eftir markalaust jafntefli við Fylki í 14. umferð hefur Valur unnið þrjá síðustu leiki sína og skorað samtals tólf mörk í þeim. Patrick Pedersen fór rólega af stað í sumar en hefur skorað níu mörk í seinni umferðinni. Pedersen er næstmarkahæstur í Pepsi-deildinni með 13 mörk, tveimur mörkum minna en Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson.

Stjarnan tapaði fyrir KR í 13. umferð en hefur náð í tíu stig af tólf mögulegum síðan þá, auk þess sem Garðbæingar tryggðu sér sæti í bikarúrslitum með sigri á FH-ingum. Stjarnan hefur tapað tveimur leikjum í sumar, báðum gegn KR. KR-ingar eru jafnframt eina lið deildarinnar sem hefur haldið hreinu gegn Stjörnumönnum í sumar. Stjarnan hefur alls skorað 39 mörk, flest allra í Pepsi-deildinni.

Leikurinn á Samsung-vellinum í kvöld hefst klukkan 19.15. Dómari er Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×