Lífið

Hef aldrei komið út úr skápnum

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
"Sjálf hef ég aldrei ætlað að verða neitt sérstakt og held því bara áfram,“ segir Andrea.
"Sjálf hef ég aldrei ætlað að verða neitt sérstakt og held því bara áfram,“ segir Andrea. Fréttablaðið/Þórsteinn
Andrea Jónsdóttir hefur stundum verið kölluð rokkamma Íslands. Hún er þjóðþekktur útvarpsmaður, sér um þættina Popppressan á Rás 2 og er plötusnúður á skemmtistaðnum Dillon um helgar.

Andrea fékk Hina íslensku fálkaorðu hinn 17. júní síðastliðinn. „Ég varð mjög hissa þegar Örnólfur Thorsson forsetaritari hringdi í mig og tilkynnti mér þetta. Ég sagði: Ertu ekki að grínast? Ég mætti svo galvösk á Bessastaði með dóttur mína og börnin hennar þrjú, Þórunni systurdóttur mína og Gumma vin okkar. Það var frábært fólk, góður og blandaður hópur, sem fékk orðuna, þar á meðal Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, sem kenndi mér íslensku í MR, en þar byrjaði ég árið 1965. Nú lentum við Árni hlið við hlið á Bessastöðum og þá sagði hann, sem mér þótti skemmtilegt: Þetta áttum við eftir að gera saman.“

Andrea segist síst hafa átt von á því að fá fálkaorðuna: „Ég lofa þér að ég hef aldrei stefnt að því. En mér finnst þetta mikill heiður og viðurkenning á popptónlist. Dægurtónlist þótti ekki merkilegur pappír í gamla daga. Ætli það séu nema tuttugu ár síðan fólk hætti að spyrja mig hvort ég væri ekki að vaxa upp úr þessu. En ég hef líklega fengið fálkaorðuna af því að ég óx ekki upp úr þessu.“

Andrea ólst upp á Selfossi ásamt tveimur systrum, eldri og yngri, og hálfbróður sem er elstur. Faðir hennar var mjólkurbílstjóri í marga áratugi og móðirin vann við verslunarstörf og var auk þess hin fullkomna húsmóðir að sögn Andreu. Hún segist snemma hafa fengið mikinn áhuga á tónlist. „Útvarpið var alltaf opið í gamla daga og þá var bara ein stöð, gamla Gufan, og allir hlustuðu á allt. Líka bændaþáttinn. Spjallað við bændur held ég að hann hafi heitið. Þegar ég var fjögurra ára fóru foreldrar mínir í ferðalag í Strandasýsluna með okkur systurnar ásamt fleiri Selfyssingum. Í rútunni var strákur þremur árum eldri en ég og hann sagði mér áratugum seinna að hann hefði hlustað á mig syngja í sífellu: Ég vildi ég væri hænuhanagrey.

Þegar ég varð eldri heillaðist ég gjörsamlega af Bítlunum, eins og heimsbyggðin öll. Það eru ekki allir sem átta sig á því að Bítlarnir voru svo miklu meira en bara tónlist. Bítlarnir breyttu heiminum. Þeim og popphreyfingunni sem kom í kjölfarið fylgdi miklu meira frelsi en áður hafði tíðkast og fólk hætti að bugta sig og beygja fyrir yfirvaldi. Ég varð yfir mig hrifin af Bítlunum, las textana og velti þeim fyrir mér. Frábær enskulærdómur.“

Spurð hvort hún eigi sér uppáhalds Bítil segir hún: „Það var eiginlega amma mín sem valdi fyrir mig árið 1965 eða 1966. Þá sá hún mynd af George í blaði á eldhúsborðinu hjá mömmu og sagði við hana: Þessi stúlka er lík henni Andreu.“ Ég varð upp með mér af samlíkingunni og ákvað að eignast uppáhalds Bítil eins og flestir aðrir. Annars elska ég alla Bítlana. Besta hljómsveit í heimi. Þeir eru frumkvöðlar á svo margan hátt.“

Engin ástæða til að hætta

Andrea fór snemma í hlutverk plötusnúðs þótt ekki fengi hún borgað fyrir þá vinnu. „Á unglingsárum fengum við systurnar plötuspilara sem pabbi lét kaupa í Noregi og hátalarinn var í lokinu og það var hægt að ferðast með hann. Ég fór iðulega með plötuspilarann og nokkrar plötur í partí og setti á fóninn, strax þá komin í hlutverk plötusnúðs. Ég las mikið af tón­listar­blöðum og tímaritum og kynnti mér þennan kúltúr. Fylgdist afskaplega vel með.

Seinna, 1971 minnir mig, vann ég fyrst hjá útvarpinu við gerð tónlistarþátta, sem er svosem eins og að vera plötusnúður, fyrir utan talið. Fimmtug datt ég svo óvænt inn í nýtt djobb þegar ég varð plötusnúður á Dillon. Það byrjaði sem sjálfboðastarf því að enginn á barnum nennti að skipta um diska í spilaranum. Ég hef verið þar síðan, árið í ár er nítjánda árið mitt. Þetta er skemmtilegt starf og ég hef ánægju af því að fara út og hitta fólk. Einstaka sinnum geta gestir í Dillon verið með leiðindi. Mjög sjaldan samt. Það fer aðallega í taugarnar á mér þegar fólk kemur og gagnrýnir lag sem er í gangi en hefur svo enga tillögu um annað. Ef viðkomandi kvartar ítrekað set ég fótinn í hann, það er ýti honum frá með fætinum. Ég sit uppi á hillu við spileríið. Svo fæ ég smá samviskubit eftir á. Ég er að verða sjötug, en sé enga ástæðu til að hætta. Það er frábært að fá vinnu við að sinna áhugamáli sínu. Mér finnst tónlist vera tvennt: list og sagnfræði. Og tíska. Ekki má gleyma henni. Þessi tónlistarheimur er minn lífsstíll.“

Hvað með áfengi og fíkniefni, hefurðu einhverja slæma reynslu af slíku?

„Ég er afskaplega lélegur dópisti og svo hef ég aldrei reykt. Ég segi stundum í gamni að ég vinni við að drekka. Það þýðir samt ekkert að vera á skallanum, af því að sem plötusnúður þarf maður að hafa margt í huga í einu, t.d. finna lögin, muna á hvaða geisladiskum þau eru og vera fljótur að skipta og tala við fólk á meðan. Ég er enn að nota geisladiska sem þykir mjög gamaldags. Það er sem sagt eins gott að vera sæmilega skýr í kollinum. Í gegnum tíðina hef ég stundum drukkið of mikið en maður lærir að finna jafnvægi í þessu með aldrinum. Ég hef lært að drekka mjög hægt.“

„Ég er að verða sjötug, en sé enga ástæðu til að hætta.“ Fréttablaðið/Þórsteinn

Árin á Þjóðviljanum

Andrea hefur ekki eingöngu unnið við tónlist. Hún vann í rúman áratug sem prófarkalesari á Þjóðviljanum. „Ég hef ákaflega gaman af málfræði og setningafræði og þess vegna fannst mér alveg sérstaklega gaman að vinna við prófarkalestur á Þjóðviljanum. Ég hefði kannski átt að verða kennari, sem ég var reyndar um tíma þegar ég kenndi ensku, dönsku og félagsfræði við Iðnskólann á Selfossi. Ég byrjaði á Þjóðviljanum árið 1972, var að leysa Elías Mar af. Það urðu straumhvörf í lífi mínu eiginlega út af tilviljun. Svavar Gestsson, sem var ritstjóri, var giftur frænku minni, henni Nínu. Hann vissi að ég var góð í íslensku og hóaði í mig. Síðan kom í ljós að það þurfti tvo prófarkalesara og þá var ég fastráðin. Seinna vantaði einhvern til að skrifa um tónlist og ég fór að gera það meðfram,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún, sem hefur skrifað svo marga pistla um tónlist, hafi skrifað skáldskap, segir hún: „Ég var eitthvað að fikta við það mjög ung. Ég er of nákvæm til að geta orðið rithöfundur en ég get skrifað frásagnir. Ég er mjög vandvirk í sambandi við það sem ég skrifa og læt frá mér.“

Andrea segist hafa unnið með mörgum minnisstæðum einstaklingum á Þjóðviljanum og minnist rithöfundarins og vinar síns Elíasar Mars með mikilli hlýju. „Hann kenndi mér og var afskaplega góður við mig. Það var mjög gaman að tala við hann um gamla daga og bækur og rithöfunda því hann þekkti svo marga. Hann var líka forvitinn um nútímann og þar gat ég laumað ýmsu að honum. Hann bjó einn og svo varð það að venju að hann borðaði hjá okkur á aðfangadag. Við borðuðum hangikjöt þegar ég eldaði, því að það er svo auðvelt á annasömum degi að elda það, sýður sig sjálft, og ég er reyndar góð í að búa til jafninginn, hvítu sósuna, sem er ómissandi með. En þáverandi sambýliskona mín, hún Lára, eldaði fínustu steikur. Og allir fengu möndlu í sinni jólagrautarskál, sem stundum var ís.

Það ríkti mjög mikið frelsi á Þjóðviljanum og fólk kom með börn sín í vinnuna ef það fékk ekki pössun, en slíkt tíðkaðist ekki á mörgum öðrum vinnustöðum í þá daga. Þetta var sérstakt samfélag og þarna var mjög samheldinn hópur sem skemmti sér oft saman utan vinnu. Þarna voru ýmsir ritstjórar og fréttastjórar, allt frábært fólk, til dæmis Kjartan Ólafsson, Árni Bergmann, Einar Karl Haraldsson, Össur Skarphéðinsson, Vilborg heitin Harðardóttir, mamma hans Marðar Árnasonar sem líka var blaðamaður á Þjóðviljanum, Svavar Gestsson, og svo hinn umdeildi maður Ólafur Ragnar Grímsson. Það kemur sumum kannski á óvart, en það var mjög gott að vinna með honum. Þá voru reglulegir fundir í mötuneytinu með öllu starfsfólki blaðsins og Ólafur Ragnar var mjög góður fundar­stjóri sem sá um að allir fengju að tala, ekki bara sjálfumglaðir blaðamenn. Ég man að Einar Olgeirsson kom stundum í heimsókn. Það var eins og hann væri með geislabaug, það var svo bjart yfir honum. Hann var ákaflega ljúfur maður.

Það má líka segja að þetta hafi verið mitt umhverfi því pabbi var á tímabili umboðsmaður Þjóðviljans á Selfossi. Hann vildi samt aldrei láta okkur systurnar bera blaðið út. Ég hefði alveg verið til í það, því að Þjóðviljinn borgaði best allra blaða fyrir útburð og rukkun. En pabbi vildi fá aðra í það. Hann hefur ekki viljað láta það sjást eða berast út að dætur hans væru að græða á því að hann væri umboðsmaður blaðsins.“

Spurð um pólitískar skoðanir sínar segir Andrea: „Á Selfossi var talað um pabba minn, sem fæddist árið 1919, sem kommúnista, eins og það hét þá. Hann var vinstrisinnaður félagshyggjumaður, eins og ég. Ég er vinstri sinnuð jafnaðarkona. Misskipting auðs er glæpur og ekkert annað. Baráttan snýst um réttláta skiptingu þessa auðs.“

 

Erfitt að vera ungur

Andrea, sem verður sjötug á næsta ári, hefur engar áhyggjur af að eldast. „Þegar ég var krakki fengum við systurnar oft sameiginlegar jólagjafir. Einu sinni fengum við spurningaspil og ein spurning þar hefur mér alltaf þótt svo frábær: Hvað er það sem allir vilja verða en enginn vera? Svarið er: Gamall.

Mér finnst mjög eðlilegt að eldast. Mér finnst líka gaman að vera til. Ég hef engan áhuga á því að verða aftur tvítug eða þrítug eða fertug, ég myndi ekki nenna því. Það getur verið mjög erfitt að vera ungur en maður áttar sig kannski ekki á því meðan maður er það.

Líkaminn er bara hjúpur og þótt hjúpurinn eldist þá er maðurinn sama manneskjan í huganum. Ég er ekkert að hanga fyrir fram spegil, ég sé hvernig ég er inni í mér. Maður þroskast og breytist með árunum, en er samt alltaf sama manneskjan. Sjálf hef ég aldrei ætlað að verða neitt sérstakt og held því bara áfram.“

Hefurðu átt slæm tímabil í lífinu?

„Margir eiga líklega slæm tímabil í lífi sínu en ég er svo heppin að hafa ekki lent alvarlega í því. Ég átti baslár í sambandi við að borga af íbúðinni minni og hef oft verið á brúninni fjárhagslega en hef reynt að passa mig á því að fara ekki fram af henni. Ég held reyndar að það hafi verið auðveldara að semja um skuldir áður en þessi ósiðlegu innheimtufyrirtæki komu til sögunnar. Ég hef aldrei tekið saman hvað ég skulda mikið, svona til að halda sönsum, en ég veit að það minnkar alltaf.

Fyrir þremur árum byrjaði ég að taka úr lífeyrissjóði og þá loksins skapaðist frelsi til að þurfa ekki að velta fyrir sér hverri krónu. Ég tala ekki illa um lífeyrissjóðina, þeir eru frábær hugmynd. Ég get hins vegar talað illa um yfirbygginguna og ofurlaun þeirra sem eru yfir þeim.“

Andrea Jónsdóttir við plötusnúðastörf á Dillon.Mynd/Aðsend

Lifir í núinu

Þú virkar sem mjög róleg manneskja, hefurðu mikið jafnaðargeð?

„Já, en ég get orðið snöggreið og ég er langrækin, samt ekki yfir hverju sem er. Ef mér finnst ég ekki geta treyst fólki lengur þá er það bara þannig. Ég reyni samt að láta það ekki bitna á viðkomandi og tala við hann þótt ég treysti honum ekki eins og áður.“

Spurð hvort hún hafi einhvern tímann glímt við þunglyndi eða depurð segir hún: „Þunglyndi er í föðurættinni og ég á það til en ekki hræðilega. Það brýst fram í framkvæmdaleysi og því að nenna ekki að svara í símann eða fara til dyra. Um leið veit ég að lífið heldur áfram og að þessi þungi er bara inni í mér. Stundum er þetta bara andleg þreyta. Ég hef alltaf unnið á fjölmennum stöðum og stundum þegar ég kem heim vil ég vera ein. Ég held að það sé mjög eðlilegt.

Við förum öll upp og niður í andlegri líðan. Öll með geðhvarfasýki í misjöfnum skömmtum. Það er ekkert óeðlilegt við það. En sum okkar þurfa hjálp ef sveiflurnar verða of miklar.“

Nú þegar þú ert að eldast, horfirðu þá stundum til baka og gerir upp hluti úr fortíðinni?

„Ég lifi í núinu. Mér finnst fyndið allt þetta núvitundartal upp á síðkastið, eins og núvitund sé eitthvað nýtt. Mér finnst hún alltaf hafa verið til. Ég held einmitt að fólk hafi lifað af vegna þess að það var með núvitund. Það er ekki hollt fyrir sálina að hafa áhyggjur af framtíðinni. Ég er ekki forlagatrúar, en mér finnst að eitt taki við af öðru í lífinu án þess að maður þurfi mikið að vera að skipuleggja það.

Ég held að maður byrji að líta til baka þegar foreldrar manns deyja. Ég var reyndar orðin fimmtug þegar pabbi dó og það var nokkur aðdragandi að því, og svo þegar mamma dó fimm árum seinna þá var eins og það kæmi gat í mig. Nú er ég orðin fullorðna manneskjan og ber ábyrgð á öllu, börnum og barnabörnunum. Ekki hægt lengur að hringja í þau spyrja um álit á hinu og þessu. Þau voru að vísu mjög afskiptalaus. Algjört sómafólk.“

 

Ekki blaðskellandi í einkalífinu

Andrea á eina dóttur, Laufeyju. „Hún fæddist árið 1974, þá var ég 25 ára. Ég á hana með vini mínum frá Selfossi, Labba í Mánum. Við vorum svo sem ekkert saman en okkur hefur alltaf samið vel og hann er hinn fínasti afi. Mér finnst að enginn eigi að eiga barn fyrr en að minnsta kosti þrítugur, maður hefur varla vit til þess fyrr. Það sem hjálpaði mér var að Laufey var afskaplega þæg, ég hef aldrei hitt þægara barn. Það er merkilegt að fylgjast með ungbarni, manni finnst eins og það sé óskrifað blað, en svo kemur karakterinn smám saman í ljós. Það er mjög spennandi að fylgjast með því. Ég eignaðist líka uppeldisson árið 1985, hann Áka, sem var eins fjörugur og Laufey var róleg. Áki er doktor í sjávarlíffræði og Laufey stjórnmálafræðingur. Laufey á þrjú börn, Mayu Andreu, Töru og Aran. Ég er forrík.

Ef fólk getur ekki eignast börn af einhverjum ástæðum þá á það ekki að hika við að ættleiða þau. Maður elskar börnin alveg jafn mikið þótt maður hafi ekki fætt þau sjálfur.“

Andrea, sem er samkynhneigð er spurð hvenær hún hafi gert sér grein fyrir því.

„Ég vissi það eiginlega alla tíð en var ekkert að tala um það. Þetta er svo langt síðan og þá var ekkert talað um kynlíf yfirhöfuð, hvers kyns sem það var. Ég hef til dæmis aldrei komið út úr skápnum. Ég sagði vinum mínum frá því og var bara ég sjálf. Ég er líka róleg týpa þannig að ég er ekki blaðskellandi í einkalífinu frekar en öðru.“

Hvernig tóku foreldrar þínir því að þú værir samkynhneigð?

„Ég var einhvern tíma í viðtalsþætti hjá Árna Þórarinssyni á Rás 2. Ég man ekki hvenær það var, kannski fyrir 30 árum. Í huga mínum rennur tíminn alltaf saman og lífið er eins og fljót sem rennur áfram. Í þættinum spurði Árni út í kynhneigð mína og ég svaraði honum í rólegheitum. Þátturinn var tekinn upp fyrir fram, en þegar upptökunni var lokið sagði ég Árna að ég hefði aldrei sagt foreldrum mínum að ég væri samkynhneigð, en ég héldi að þeir vissu það. Ég sagðist verða að hringja í þau og bað hann að senda þáttinn ekki út fyrr en ég væri búin að því. Ég hringdi í þau en þau svöruðu ekki og þá hringdi ég í systur mína á Selfossi og sagði: Heldurðu að þau viti ekki örugglega að ég er samkynhneigð? Hún sagði: Æ, ég skal bara fara og tala við þau. Hún fór og sagði þeim þetta og þá sagði pabbi: Hún má vera það sem hún vill, þetta er hennar líf. Auðvitað vissu þau þetta. Þeim fannst ekkert athugavert við samkynhneigt fólk en voru af þeirri kynslóð sem vildi ekki endilega vera mikið að tala um kynhneigð fólks.“

Núna býrð þú ein, hefurðu átt stóra ást í lífinu?

„Já, já.“

Eina stóra?

„Ég veit ekki hvort ég ætti að vera að telja þær. Mér finnst það svo dónalegt!“

Af hverju entust sambönd þín ekki?

„Hlutir entust í einhvern tíma. Þótt ég sé geðgóð þá er ég einfari í mér og það er erfitt fyrir viðkomandi. Mér finnst best að búa ein. Ég er samt alls ekki ein því barnabörnin eru mikið hjá mér. Miðbarnabarnið vill endilega að ég fái mér kött af því ég sé alltaf ein. Ég hef verið með ketti sem voru skildir eftir hjá mér en eftir að sá síðasti dó hef ég ákveðið að þeir verða ekki fleiri.“

 

Fordómaleysi þjóðarinnar

Gleðigangan er í dag, laugardag, og Andrea hefur fyrir venju að fara þangað. „Ég var þar til dæmis einu sinni í flottri, pólitískri göngu með Páli Óskari okkar. Kannski er ég bara sveitaleg, en mér fannst langskemmtilegast þegar gangan fór niður Laugaveginn. Gangan er samt alltaf glæsileg. Það er frábært hvað Íslendingar hafa tekið henni vel. Viðtökurnar endurspegla fordómaleysi þjóðarinnar.

Sumum finnst erfitt þegar einhver þeim nákominn kemur út úr skápnum og þá þarf að gefa þeim smátíma til að ná áttum. Sumir eru reyndar algjörir þverhausar og skammast sín fyrir það að barnið þeirra sé samkynhneigt. Það er akkúrat ekkert til að skammast sín fyrir. Maður á að vera glaður ef barnið manns er ánægt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×