Íslenski boltinn

Stjarnan hefur harma að hefna í úrslitunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þorsteinn Halldórsson og Ólafur Þór Guðbjörnsson mætast á föstudag
Þorsteinn Halldórsson og Ólafur Þór Guðbjörnsson mætast á föstudag vísir/vilhelm
Stjarnan tapaði í framlengingu gegn ÍBV í úrslitum bikarkeppni KSÍ síðasta sumar. Garðbæingar fá tækifæri til þess að hefna úrslitanna frá því í fyrra þegar liðið mætir Breiðabliki í úrslitunum á föstudag.

Stjarnan og Breiðablik hafa mæst tvisvar í deildinni í sumar og hafa Blikar unnið báða leikina. 6-2 í Garðabænum í upphafi móts og 1-0 á Kópavogsvelli í júlí.

„Auðvitað er jákvætt að hafa unnið þær tvisvar í sumar og það sýnir ákveðna hluti sem við getum gert til þess að vinna þær, en það hjálpar okkur í sjálfu sér ekki beint í leiknum,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, á blaðamannafundi fyrir leikinn í höfuðstöðvum KSÍ í gær.

„Þetta er önnur keppni og öðruvísi upplag í leiknum. En þessi leikur verður spennandi. Við fórum að vísu illa út úr fyrsta leiknum í sumar en seinni leikurinn var spennandi og jafn,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar.

Úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna fer fram á Laugardalsvelli klukkan 19:15 á föstudaginn, 17. ágúst. Miðasala á leikinn er hafin á tix.is og hvetur KSÍ stuðningsmenn liðanna til þess að kaupa miða fyrir fram og auðvelda þannig alla framkvæmd á leikdegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×