Fótbolti

Titill í boði í fyrsta leik Real Madrid án Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Real Madrid fagna hér sigri í Meistaradeildinni þriðja árið í röð. Garteh Bale er nú stærsta stjarnan í framlínu liðsins.
Leikmenn Real Madrid fagna hér sigri í Meistaradeildinni þriðja árið í röð. Garteh Bale er nú stærsta stjarnan í framlínu liðsins. Vísir/Getty

Real Madrid spilar í kvöld sinn fyrsta keppnisleik síðan að félagið seldi Cristiano Ronaldo til ítalska félagsins Juventus.

Margir voru hissa á sölunni og margir bíða líka spenntir eftir því að sjá hvernig Real liðið stendur sig án stærstu stjörnunnar í sögu félagsins.

Fyrsti leikurinn án CR7 er á móti nágrönnunum í Atlético Madrid en hann fer þó ekki fram í Madrid heldur í Tallin í Eistlandi sem er í fjögur þúsund kílómetra fjarlægð.

Leikur Real Madrid og Atlético Madrid hefst klukkan 19.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Þetta er leikurinn um Ofurbikar Evrópu og þar mætast sigurvegarnar i Meistaradeildinni og Evrópudeildinni á síðustu leiktíð. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni þar sem lið frá sömu borg mætast í þessum árlega leik.

Real Madrid vann 3-1 sigur á Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en Atlético Madrid vann 3-0 sigur á Marseille í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Julen Lopetegui er nú tekinn við liði Real Madrid af Zinedine Zidane og stærsta verkefni hans er að fylla í skarðið sem Cristiano Ronaldo skilur eftir sig.

Diego Simeone, þjálfari Atlético Madrid, talaði um það fyrir leikinn að hann búist við öðrum leikstíl hjá Real Madrid en á dögum Zinedine Zidane. Simeone býst við sömu hápressu og þegar Lopetegui þjálfaði spænska landsliðið.

Líklegast er að þrír fremstu menn Real Madrid liðsins verði þeir Gareth Bale, Karim Benzema og Marco Asensio og fyrir aftan þá spila væntanlega þeir Toni Kroos, Casemiro og Isco. Ekki slæmt þótt engin sé Cristiano Ronaldo í liðinu.

Real Madrid getur unnið Ofurbikar Evrópu þriðja árið í röð en liðið vann Manchester United 2-1 í þessum leik í Skopje (Makedóníu) í fyrra og hafði unnið 3-2 sigur á Sevilla í Þrándheimi (Noregi) í leiknum árið 2016.

Real Madrid gekk vel á undirbúningstímabilinu. Tapaði reyndar 2-1 í fyrsta leik á móti Manchester United í Miami í Bandaríkjunum en vann síðan leiki sína á móti ítölsku félögunum Juventus (3-1), Roma (2-1 og AC Milan (3-1). Þetta verður hinsvegar fyrsti leikurinn á móti spænsku liði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.