Fótbolti

Verðum að eiga algjöran toppleik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Patrick Pedersen var á skotskónum í síðasta deildarleik.
Patrick Pedersen var á skotskónum í síðasta deildarleik. Vísir/Daníel
Valur freistar þess að koma sér skrefi nær riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla með því að leggja moldóvska liðið Sheriff að velli í seinni leik liðanna í þriðju umferð í forkeppni deildarinnar á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld.

Fyrri leik liðanna lyktaði með 1-0-sigri heimaliðsins og Valur þarf því að vinna upp þetta eins marks forskot til þess að mæta Hannesi Þór Halldórssyni og félögum hans hjá aserska liðinu Qarabag í fjórðu umferð forkeppninnar. Fara þarf í gegnum fjórar umferðir til þess að komast í riðlakeppnina, en engu íslensku liði hefur tekist að komast svo langt í keppninni.

„Þetta er sterkt lið sem hefur leikið í riðlakeppni deildarinnar á síðustu árum. Við fórum í leikinn úti með það að markmiði að liggja til baka og eiga raunhæfan möguleika á að komast áfram í heimaleiknum. Það tókst, þó svo að það hafi verið svekkjandi að fá markið á sig eftir að hafa haldið þeim í skefjum lungann úr leiknum,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vals, í samtali við Fréttablaðið.

„Þeir eru með fljóta og áræðna leikmenn og spiluðu blandaðan bolta af stuttum sendingum og löngum sendingum inn fyrir vörnina. Mér fannst vinstri kantmaðurinn þeirra öflugasti leikmaður sóknarlega í útileiknum og við verðum að hafa góðar gætur á honum. Ég met það sem svo að við eigum helmingslíkur á að komast áfram ef við spilum okkar besta leik,“ sagði Eiður Aron enn fremur um leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×