Fótbolti

Haukur Páll: Á næsta ári, þá förum við í riðlakeppnina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Origovellinum skrifar
Haukur var öflugur í kvöld eins og svo oft áður.
Haukur var öflugur í kvöld eins og svo oft áður. vísir/daníel
„Þetta er ömurlegt,“ sagði fyrirliði Vals, Haukur Páll Sigurðsson, eftir leik Vals og Sheriff á Hlíðarenda í kvöld. „Við lögðum svo mikið í þetta. Þetta er gott fótboltalið sem við spiluðum við. Skítamark sem við fáum á okkur, ég er svekktur, mjög svekktur.“

Valur vann leikinn 2-1 en er úr leik á útivallarmarki moldóvska liðsins. Valur fékk dauðafæri undir lokin til þess að skora þriðja markið og fara áfram en boltinn vildi ekki í netið.

Valur var sterkari aðilinn mest allan leikinn en mark gestanna kom upp úr einbeitingarleysi í seinni hálfleik. Hvað fór úrskeiðis í markinu sem gestirnir skora? „Uppleggið okkar var að spila út úr markspyrnum og losa fyrstu pressuna hjá þeim. Við gerðum það en svo var liðið of slitið. Langur bolti fram, þeir vinna fyrsta boltann og hann dettur dauður. Það er ekki hægt að kenna neinum um þetta, við tökum þessu sem lið og höldum áfram.“

„Mjög góð frammistaða en svo fúlt. Fáum algjört dauðafæri til að koma þessu í 3-1 og þetta er bara ógeðslega svekkjandi. Hefði verið gaman að fara eina umferð í viðbót en það er bara á næsta ári, þá förum við í riðlakeppnina,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×