Enski boltinn

Man Utd snýr sér að Yerry Mina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Verðandi leikmaður Man Utd?
Verðandi leikmaður Man Utd? vísir/getty
Enska stórveldið Manchester United hefur fært sig yfir til Spánar í leit að nýjum miðverði og er Kólumbíumaðurinn Yerry Mina nú orðinn efstur á óskalista Jose Mourinho sem vill styrkja vörnina með nýjum miðverði.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er Man Utd búið að gefast upp á viðræðum við Leicester vegna Harry Maguire en verðmiðinn á honum var ekki undir 60 milljónum punda að því er heimildir Sky herma.

Hefur því verið tekin ákvörðun um að halda í viðræður við Barcelona með það fyrir augum að kaupa hinn 23 ára gamla Mina en hann gekk í raðir Barcelona í byrjun þessa árs og náði ekki að vinna sér sæti í byrjunarliðinu. Hann lék aðeins sex leiki með Barca á seinni hluta síðustu leiktíðar.

Hann var svo af mörgum talinn besti leikmaður Kólumbíu á HM í Rússlandi en þrátt fyrir það er vitað að Barcelona er tilbúið að losa sig við kappann sem virtist vera á leiðinni til Everton fyrr í sumar.

Man Utd hefur keppni í ensku úrvalsdeildinni eftir átta daga þegar liðið fær Leicester í heimsókn á Old Trafford í opnunarleik deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×