Enski boltinn

Jón Daði opnaði markareikninginn í Championship en það dugði skammt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jón Daði að stanga boltann framhjá varnarlausum Scott Carson.
Jón Daði að stanga boltann framhjá varnarlausum Scott Carson. vísir/getty
Knattspyrnuvertíðin í Englandi hófst með leik Reading og Derby County í 1.umferð ensku B-deildarinnar í kvöld og var íslenski landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson í fremstu víglínu heimamanna.

Jón Daði var kraftmikill í kvöld og kom sér í tvö góð færi snemma leiks án þess þó að skora og staðan í leikhléi markalaus.

Selfyssingurinn knái mætti einnig ákveðinn til leiks í síðari hálfleik og það skilaði honum marki á 52.mínútu. Jón Daði skallaði þá fyrirgjöf Gambíumannsins Mo Barrow í netið og kom Reading í 1-0. Afar laglegt mark.

Gestirnir, undir stjórn Chelsea goðsagnarinnar Frank Lampard, náðu hins vegar að koma til baka og jafna leikinn. Það gerði Mason Mount með skoti utan teigs á 60.mínútu en Vito Mannone í marki Reading átti að gera betur.

Jóni Daða var skipt af velli eftir 75 mínútna leik og á síðustu mínútu uppbótartímans náðu gestirnir að koma inn sigurmarki þegar Tom Lawrence skoraði eftir fyrirgjöf Mason Bennett. Lokatölur 1-2 fyrir Derby.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×