Erlent

Hækkuðu einkunnir karla til að fækka kvenlæknum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forsvarsmenn skólans hneigðu sig við upphaf blaðamannafundarins í gær.
Forsvarsmenn skólans hneigðu sig við upphaf blaðamannafundarins í gær. Vísir/Getty
Læknaháskóli í Tókýó hefur beðist afsökunar á því að hafa, áratugum saman, hagrætt úrslitum inntökuprófa til að tryggja að fleiri karlmenn hlytu brautargengi.

Niðurstöður innri rannsóknar benda til að skólinn hafi átt við öll inntökupróf frá árinu 2006 hið minnsta, er fram kemur í japönskum fjölmiðlum.

Á blaðamannafundi í Tókýó í gær sögðu forsvarsmenn skólans að þeir myndu hætta hagræðingunni hið snarasta. Þá væri jafnvel til skoðunar að hafa samband við allar þær konur sem undir eðlilegum kringumstæðum hefðu staðist prófið. Hvernig skólinn ætlar sér að gera það fylgdi þó ekki sögunni.

Hagræðingin kom í ljós í úttekt sem ráðist var í eftir að sonur háttsetts embættismanns fékk inngöngu í skólann. Fyrrverandi rektor skólans og embættismaðurinn hafa verið ákærðir fyrir mútuþægni, en sá síðarnefndi lofaði skólanum rannsóknarstyrkjum gegn því að sonur hans stæðist inngönguprófið.

Úttektin sýndi einnig fram á að skólinn hefði lækkað allar einkunnir á inntökuprófinu um hið minnsta 20 prósent - og síðan lagt 20 stig ofan á einkunnir karlkyns umsækjenda. Aðeins einkunnir þeirra karla sem höfðu fallið hið minnsta fjórum sinnum á prófinu voru ekki hækkaðar. Fyrrnefndur embættismannasonur fékk þessa meðferð, enda hafði hann aðeins fallið þrisvar á prófinu.

Forsvarsmenn skólans segja að ástæðan fyrir hagræðingunni væri einföld: Þeir hafi viljað færri kvenkyns lækna því forsvarsmennirnir óttuðust að þær myndu einhvern tímann gera hlé á starfsferli sínum til að sinna móðurhlutverkinu.

Haft er eftir lögmanninum Kenji Nakai að ferlið hafi einkennst af „djúpstæðu kynjamisrétti.“ Hann segir að grunur leiki á að forsvarsmenn skólans hafi einnig þegið peningagreiðslur frá foreldrum drengja sem vildu að þeir stæðust inntökuprófið. Hagræðingin var, að mati Nakai, hluti af menningu ógagnsæis og ósanngirni. Frekari rannsóknar væri því þörf enda kynni meira að leynast undir yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×