Enski boltinn

Arsenal lánar Chambers til nýliðana

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Enski varnarmaðurinn Calum Chambers hefur verið lánaður frá Arsenal til nýliða Fulham í ensku úrvalsdeildinni, aðeins nokkrum vikum eftir að hafa skrifað undir nýjan langtímasamning við Arsenal.

Hinn 23 ára gamli Chambers gerði nýjan fjögurra ára samning við Arsenal í byrjun júlí en hann kom við sögu í 12 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð eftir að hafa varið leiktíðinni þar á undan sem lánsmaður hjá Middlesbrough þar sem hann var hluti af liðinu sem féll úr úrvalsdeildinni.

Chambers var keyptur til Arsenal frá Southampton fyrir fjórum árum síðan en hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Skyttunum en Unai Emery, nýráðinn stjóri Arsenal, lét hafa eftir sér að þrátt fyrir að hann væri tilbúinn að lána Chambers til Fulham ætti hann framtið fyrir sér á Emirates.

Fulham hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum í sumar en á meðal nýrra leikmanna nýliðana má nefna Jean Michael Seri, Alfie Mawson og Andre Schurrle.

Fulham fær Crystal Palace í heimsókn í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×