Enski boltinn

Rooney: United þarf tvo leikmenn í viðbót til að vinna tititlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney með enska meistarabikarinn þegar Manchester United vann hann síðast árið 2013.
Wayne Rooney með enska meistarabikarinn þegar Manchester United vann hann síðast árið 2013. Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að hans gamla félag þurfi að styrkja sig ætli liðið að eiga alvöru möguleika á því að vinna enska meistaratitilinn næsta vor.

Manchester United endaði í öðru sæti í deildinni síðasta vor á eftir nágrönnum sínum í Manchester City en City var með yfirburðarlið á síðustu leiktíð og fékk sem dæmi 19 fleiri stig en United.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur verið mjög pirraður á undirbúningstímabilinu og kallað eftir nýjum leikmönnum en ekkert hefur gerst ennþá. Rooney er sammála gamla stjóranum sínum.

Wayne Rooney fór til Everton fyrir ári síðan en er núna orðinn leikmaður DC United í bandarísku MLS-deildinni.

„Það verður erfitt að ná City eftir síðasta tímabil. City-liðið hefur verið að spila frábæran fótbolta,“ sagði Wayne Rooney við Sky Sports.

„Ég vona samt að eitthvert lið nái í skottið á þeim. Það væri gott og vonandi tekst Manchester United að brúa bilið. Ég held samt að þeir þurfi þá að styrkja sig um einn eða tvo leikmenn,“ sagði Rooney.

„Ég er viss um að Jose (Mourinho) sé búinn að undirbúa liðið vel. Ég veit að það hefur verið mikil umræða um undirbúningstímabil liðsins í fjölmiðlum en ég er viss um það að bak við tjöldin þá hefur Jose gert réttu hlutina,“ sagði Rooney.

„Þeir mæta Leicester á föstudaginn og vonandi tekst þeim að taka eitt skref til viðbótar og ná titlinum til baka,“ sagði Rooney.

Wayne Rooney lék í þrettán ár með Manchester United (2004–2017) og varð fimm sinnum enskur meistari með liðinu (20007, 2008, 2009, 2011 og 2013).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×