Enski boltinn

Sky Sports: Everton að hafa betur í baráttunni við Man. United um Mina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yerry Mina fagnar hér marki á HM í Rússlandi í sumar.
Yerry Mina fagnar hér marki á HM í Rússlandi í sumar. Vísir/Getty
Barcelona-maðurinn Yerry Mina er á leiðinni í ensku úrvalsdeildina samkvæmt heimildum Sky Sports en Kólumbíumaðurinn endar þó ekki á Old Trafford.

Yerry Mina mun væntanlega ganga til liðs við Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Everton seinna í dag.

Manchester United hafði einnig áhuga á þessum 23 ára varnarmanni en það lítur út fyrir að Everton hafi haft þar betur.

Miðvörðurinn sló í gegn með kólumbíska landsliðinu á HM í Rússlandi þar sem hann skoraði meðal annars þrjú skallamörk eftir föst leikatriði.

Yerry Mina yrði þá annar leikmaðurinn í þessum mánuði sem Everton kaupir af Barcelona en á dögunum fékk Bítlaborgarfélagið franska bakvörðinn Lucas Digne frá Barcelona.

Yerry Mina kom til Barcelona frá brasilíska félaginu Palmeiras í janúar síðastliðnum. Hann náði aðeins að spila sex leiki fyrir Barcelona en sýndi síðan styrk sinn á heimsmeistaramótinu í sumar.

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, hefur verið á eftir miðverði eftir að þeir Ramiro Funes Mori og Ashley Williams yfirgáfu félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×