Enski boltinn

Sky Sports segir Man United vera að reyna að kaupa Diego Godin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Godin tók við Evrópudeildarbikarnum síðasta vor.
Diego Godin tók við Evrópudeildarbikarnum síðasta vor. Vísir/Getty
Diego Godin, fyrirliði Atlético Madrid og úrúgvæska landsliðsins, gæti endað hjá Manchester United áður en félagskiptaglugginn lokar seinna í dag.

Sky Sports segir Man United vera að reyna að kaupa Diego Godin sem er í hópi bestu varnarmanna heims og einn mesti leiðtoginn í boltanum.

Flestir töldu að Manchester United tækist ekki að finna sér miðvörð áður en glugginn lokaði og eru þetta því nokkuð óvæntar fréttir.

Diego Godin er 32 ára gamall og hefur leikið með Atlético Madrid frá árinu 2010. Hann lék þar áður í þrjú tímabil með Villarreal.

Diego Godin á að baki 122 landsleiki fyrir Úrúgvæ og hefur spilað á þremur síðustu heimsmeistaramótum. Hann var fyrirliði Úrúgvæ á HM 2014 og HM 2018.

Godin hefur verið fyrirliði Atlético Madrid liðsins undanfarin tímabil en með félaginu hefur hann unnið spænska meistaratitilinn (2014) og Evrópudeildina tvisvar sinnum (2012 og 2018).

Godin fór einnig með Atlético í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2014 og árið 2016.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×