Íslenski boltinn

ÍA á toppinn eftir að HK tapaði sínum fyrsta deildarleik í tæpt ár

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhannes Karl er þjálfari Skagamanna sem eru á toppnum.
Jóhannes Karl er þjálfari Skagamanna sem eru á toppnum. vísir/ernir
ÍA er komið á toppinn í Inkasso-deild karla eftir 2-1 sigur á Njarðvík. Á sama tíma tapaði HK sínum fyrsta leik í Inkasso-deildinni.

Jeppe Hansen hefur smollið eins og flís við rass á Skaganum en hann kom ÍA yfir á níundu mínútu áður en Einar Logi Einarssont tvöfaldaði forystuna á 52. mínútu.

Þórður Þorsteinn Þórðarson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 86. mínútu. Fleiri urðu mörkin þó ekki og sterkur sigur Skagamanna í Njarðvík.

Þeir eru komnir á toppinn á ný. Skagamenn eru með 33 stig en Njarðvík er í tíunda sæti deildarinnar með þrettán stig, stigi frá fallsæti.

HK tapaði sínum fyrsta leik í Inkasso-deildinni þetta sumarið og fyrsta leik síðan í Inkasso-deildinni síðan 18. ágúst í fyrra. Liðið tapaði 0-1 gegn Þrótti í Kórnum í kvöld.

Eina mark leiksins skoraði Daði Bergsson á 35. mínútu en HK er í öðru sæti eftir tapið, stigi á eftir ÍA og stigi á undan Ólafsvík sem er í þriðja sæti. Þróttur er í fimmta sæti með 26 stig.

Í Breiðholti vann ÍR svo Breiðholtsslaginn. Eina mark leiksins skoraði Ágúst Freyr Hallsson á fjórðu mínútu er hann tryggði ÍR 1-0 sigur. ÍR er í sjöunda sæti með sextán stig en Leiknir sæti neðar með stigi minna.

Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×