Fótbolti

Conte óvænt orðaður við AC Milan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Conte skellihlæjandi á San Siro ásamt kollegum sínum, Roberto Donadoni og Carlo Ancelotti, fyrr í sumar. Hann gæti nú veirð að taka við AC Milan.
Conte skellihlæjandi á San Siro ásamt kollegum sínum, Roberto Donadoni og Carlo Ancelotti, fyrr í sumar. Hann gæti nú veirð að taka við AC Milan. vísir/getty
Ítalskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að ítalska stórveldið AC Milan sé að undirbúa samningstilboð fyrir Antonio Conte um að hann taki við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu og Gennaro Gattuso verði látinn víkja.

Töluverðar breytingar hafa átt sér stað hjá félaginu á undanförnum vikum en félagið er nú í eigu bandarísks vogunarsjóðs. Þá tók Leonardo, fyrrum leikmaður og þjálfari félagsins, nýverið við sem yfirmaður íþróttamála hjá AC Milan.

Þó Leonardo hafi gefið út að staða Gattuso væri örugg telja ítalskir fjölmiðlar að AC Milan sé tilbúið að láta Gattuso fara reynist Conte falur.

Gattuso, sem einnig er fyrrum leikmaður félagsins, tók við stjórastöðunni af Vincenzo Montela um miðbik síðasta tímabils og stýrði AC Milan í sjötta sæti Serie A.

Samkvæmt sömu heimildum er AC Milan tilbúið að bjóða Conte 6 milljónir evra í árslaun fyrir að taka að sér starfið en Conte stendur í málaferlum við Chelsea eftir að hafa verið látinn taka pokann sinn hjá Lundúnarliðinu á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×