Enski boltinn

Meiðsli Mahrez ekki alvarleg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mahrez fær aðhlynningu á vellinum í Miami
Mahrez fær aðhlynningu á vellinum í Miami Vísir/Getty
Meiðsli Riyad Mahrez eru ekki eins alvarleg og fyrst var óttast og hann gæti spilað með Manchester City gegn Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn næsta sunnudag.

Mahrez var keyptur til City frá Leicester í sumar á 60 milljónir punda. Hann fór meiddur af velli í vináttuelik gegn Bayern München í Miami í gær og litu meiðslin ekki vel út.

Þegar City-liðið ferðaðist aftur til Englands mátti sjá Mahrez í spelku og á hækjum og var óttast að hann gæti orðið lengi frá.

„Myndir sýna engin alvarleg meiðsli,“ sagði í stuttorðaðri tilkynningu frá Englandsmeisturunum þar sem einnig kom fram að Mahrez gæti verið tilbúinn í leikinn gegn Chelsea.

Leikurinn um Samfélagsskjöldinn, þar sem bikarmeistararnir og Englandsmeistararnir mætast, markar upphaf nýs tímabils í enska boltanum. Í ár fer hann fram næsta sunnudag, 5. ágúst, klukkan 14:00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×