Enski boltinn

Valsbanarnir í Rosenborg kaupa leikmann frá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro Chirivella er með Liverpool í Bandaríkjaferðinni.
Pedro Chirivella er með Liverpool í Bandaríkjaferðinni. Vísir/Getty
Norska liðið Rosenborg hefur styrkt liðið fyrir baráttuna framundan með leikmanni frá Liverpool.

Rosenborg mun borga Liverpool 3,5 milljónir punda fyrir Spánverjann Pedro Chirivella.

Rosenborg sló Val naumlega út úr Meistaradeildinni á dögunum en taoaði 3-1 fyrir Celtic í fyrri leik sínum í annarri umferð undankeppninnar. Chirivella gæti mögulega náð seinni leiknum.

Pedro Chirivella er 21 árs varnarsinnaður miðjumaður sem hefur verið í láni hjá hollensku félögunum Go Ahead Eagles og Willem II undanfarin ár.

Chirivella spilaði síðast með Liverpool í 4-1 sigri á Manchester United í æfingaleik í Bandaríkjunum um helgina.

Chirivella er fæddur í Valencia á Spáni en hann kom til Liverpool árið 2013 eða þegar hann var aðeins sextán ára gamall. Hann spilaði á sínum tíma fimmtán leiki fyrir spænska sautján ára landsliðið.





Fjölskylda hans flutti með honum norður til Liverpool og Chirivella fékk síðan sinn fyrsta atvinnumannasamning árið 2014.

Pedro Chirivella náði aðeins að spila fimm leiki með Liverpool í öllum keppnum en hann lék 17 leiki með Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni 2016-17 (2 mörk, 2 stoðsendingar) og 31 leik með Willem II í hollensku úrvalsdeildinni 2017-18 (0 mörk, 3 stoðsendingar).

Liverpool er þó ekki alveg búið að slíta sig frá Chirivella því félagið hefur forkaupsrétt á Spánverjanum næstu þrjú tímabil hans í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×