Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Keflavík 3-0 | Hrakfarir Keflavíkur halda áfram

Smári Jökull Jónsson á Grindavíkurvelli skrifar
Vísir/Andri Marínó
Grindavík er komið aftur á sigurbraut eftir 3-0 sigur á botnliði Keflavíkur í Pepsi-deildinni í kvöld. Sigurinn var kærkominn eftir þrjá tapleiki í röð en Keflvíkingar eiga enn eftir að vinna sigur á tímabilinu.

Gestirnir byrjuðu af krafti og fengu færi strax í upphafi sem ekki nýttist. Á 19.mínútu kom Will Daniels svo heimamönnum yfir með góð marki og aðeins fimm mínútum síðar bætti hinn spænski Sito við öðru marki úr vítaspyrnu.

Eftir þetta virtist sem Keflvíkingar hefðu misst trúna á því að þeir gætu skorað. Aðgerðir þeirra voru fremur máttlausar og þó svo að þeir væru að berjast ágætlega úti á vellinum var lítið í gangi.

Þegar Alexander Veigar Þórarinsson skoraði svo þriðja mark Grindavíkur strax í upphafi seinni hálfleiks voru úrslitin ráðin. Grindvíkingar sigldu sigrinum nokkur örugglega í höfn og fögnuðu vel eftir þrjá tapleiki í röð þar á undan.

Keflvíkingar sitja hins vegar sem fastast á botni Pepsi-deildinnar án sigurs í sumar og þeir hafa auk þess ekki skorað mark síðan 4.júní.

Af hverju vann Grindavík?

Eftir að heimamenn náðu fyrsta markinu tóku þeir yfir leikinn. Þeir voru hættulegri sóknarlega og gestirnir engan veginn nógu beittir í sínum aðgerðum til að ógna vel skipulögðu liði Grindavíkur að einhverju ráði.

Keflvíkingar ógnuðu helst í föstum leikatriðum en sköpuðu sér lítið af opnum færum á meðan Grindavík hefði vel getað skorað meira. Keflavík þarf að hafa trú á því sem þeir ætla sér að gera og ef það vantar þá verður erfiðara fyrir þá að ná í einhver stig.

Þessir stóðu upp úr:

Rene Joensen átti góðan leik í liði Grindavíkur og nýr leikmaður þeirra Elias Tamburini, sem samdi við liðið á dögunum, átti einnig mjög góðan leik í vinstri vængbakverðinum. Alexander Veigar Þórarinsson virðist einnig vera að komast í sitt besta form og skoraði nú í öðrum leiknum í röð.

Þá var Sigurjón Rúnarsson virkilega öflugur í vörninni en þessi ungi leikmaður hefur fengið traustið hjá Óla Stefáni þjálfara í síðustu leikjum og staðið vel undir því.

Hvað gekk illa?

Keflavík gekk illa með margt eftir að þeir lentu undir í dag. Það hlýtur að vera erfitt verkefni fyrir þjálfarateymi liðsins að halda uppi góðum anda í hópnum og trú á verkefninu. Eysteinn Húni er hins vegar langt frá því að vera búinn að gefast upp en Keflvíkingar þurfa nánast á kraftaverki að halda ætli þeir sér að spila í Pepsi-deildinni að ári.

Hvað gerist næst?

Grindvíkingar halda næst í Frostaskjólið og mæta þar KR-ingum. Liðin eru með jafnmörg stig í 4.-5.sæti deildarinnar og því um mikilvægan leik að ræða í baráttu um Evrópusæti.

Keflvíkingar taka á móti Breiðablik á Nettó-vellinum en Blikar eru í harðri toppbaráttu við Stjörnuna og Val.

Óli Stefán: Lögðum áherslu á að laga til í varnarleiknum
Óli Stefán var ánægður með sína menn í kvöldVísir/Stefán
„Þetta var mjög gott. Frammistaðan var góð lungann úr leiknum, við þurftum að fara vel inn í návígin og Keflvíkingar mættu gríðarlega sterkir til leiks. Við þurftum að standast þeirra áhlaup og gerðum það ágætlega. Mér leið vel rosalega vel eftir að við náðum að brjóta ísinn og leið vel með flest allt sem við vorum að gera,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn gegn Kefalvík í kvöld.

Sigurinn var kærkominn eftir þrjá tapleiki í röð og þá sérstaklega að halda hreinu eins og Óli Stefán kom inná.

„Við höfum verið að leggja mikla áherslu á að laga til í varnarleiknum og við höfum verið að fá of mikið af mörkum á okkur. Þeir eru að fá full mörg föst leikatriði og við vorum í miklum slag en það er mjög sterkt að halda hreinu.“

Grindvíkingar tefldu fram Elias Tamburini í byrjunarliðinu í dag en þeir sömdu við þennan unga finnska leikmann á dögunum.

„Ég er gríðarlega ánægður með hann. Hann minnti á gamla góða Jobba (Jósef Kristinn Jósefsson, leikmaður Stjörnunnar) fannst mér. Það var ofboðslega mikill kraftur í honum og honum leið greinilega vel. Ég er ánægður með hafa látið slag standa og tekið hann inn í hópinn. Hann er góð viðbót við okkar hóp og hann hefur það sem okkur í raun vantaði sem var hraði út á kantinn,“ bætti Óli Stefán við.

Með sigrinum fór Grindavík upp í 4.-5.sæti deildarinnar og eru með jafnmörg stig og KR-ingar sem þeir einmitt mæta í næstu umferð.

„Þetta er eitt verkefni í einu hjá okkur og við reynum að tengja saman góðar frammistöður. Við áttum góðan leik í dag eins og reyndar í síðustu tveimur leikjum þó þeir hafi tapast. Þannig er bara okkar vinna og allir þessir leikir eru ógeðslega erfiðir og við munum undirbúa okkur vel núna og mæta galvaskir í Frostaskjólið.“

Sérstakt atvik átti sér stað strax á 8.mínútu þegar Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari hljóp skyndilega að varamannabekk Grindvíkinga og gaf Þorsteini Magnússyni markmanssþjálfara þeirra Grindavíkur rautt spjald. Hvað gerðist eiginlega þar?

„Ég tók bara ekki eftir því, hann hefur sjálfsagt sagt eitthvað. Við verðum auðvitað að passa okkur, við sem sitjum þarna fyrir aftan. Við megum ekki segja hvað sem er. Hann hefur sjálfsagt sagt eitthvað sem hefur verðskuldað þetta en ég á bara eftir að heyra í honum.“

Eysteinn Húni: Megum ekki fara í neina sjálfsvorkunn
Eysteinn Húni, sem er lengst til vinstri á þessari mynd, tók ábyrgðina á tapinu í Grindavík í kvöld.Vísir
„Þetta er mjög súrt og óþolandi en ég verð að taka ábyrgðina á þessu. Ég ákvað að keyra inn í leikinn, fara ofar með liðið og í byrjun leiks fáum við tækifæri. Ef við hefðum skorað þá hefði þetta verið breyttur leikur,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur eftir 3-0 tap liðsins gegn nágrönnunum í Keflavík í Pepsi-deildinni í kvöld.

Keflavík byrjaði ágætlega en eftir að Grindvíkingar komust yfir virtust Keflvíkingar svolítið missa trúna á að þeir gætu unnið sig til baka inn í leikinn.

„Mörkin draga dálítið úr okkur og markið í byrjun seinni hálfleiks nánast drepur okkur. Við megum ekki láta það gerast, sama hvernig staðan er þá verðum við að halda áfram að þjappa okkur saman og hafa góð áhrif á hvorn annan,“ bætti Eysteinn við en Keflavík hefur ekki unnið leik í sumar og ekki skorað mark síðan 4.júní.

„Það þarf hrikalega sterk bein til að standa í þessu og er ekkert fyrir hvern sem er. Það er allavega engin uppgjöf í mér og við förum yfir þetta á morgun og stefnum á að gera betur í þessum leik.“

Leikurinn var sá annar sem Eysteinn stjórnar eftir að hann tók við sem þjálfari af Guðlaugi Baldurssyni. Hverju hefur hann helst verið að vinna í hjá liðinu eftir að hann tók við?

„Það er hugarfarið hjá mönnum fyrst og fremst. Koma því í gang að menn missi ekki trúna og að þeir sjái að það séu leiðir til að vinna leikina. Þær eru til staðar þó við höfum steinlegið í dag, þetta er ekki vonlaust.“

Það var fínasta mæting á leikinn í dag og ekki síst hjá stuðningsmönnum Keflavíkur sem virðast síður en svo vera búnir að gefa upp vonina þrátt fyrir dapurt gengi liðsins.

„Ég á varla orð yfir okkar stuðningsmenn að þeir skuli ennþá standa með okkur, mæta svona margir og vera að hvetja hér í lokin. Það sýnir gríðarlegan karakter. Við megum náttúrulega ekki fara í neina sjálfsvorkunn því við þurfum að þjappa okkur saman og vinna þetta saman.“

Björn Berg: Besta sem gat gerst að mæta Keflavík eftir taphrinuna
Grindvíkingar fagna markiVísir/Hanna
Björn Berg Bryde átti fínan leik í vörn Grindavíkur þegar liðið vann 3-0 sigur á Keflavík í kvöld.

„Ég held að þegar öllu sé á botninn hvolft þá sé þetta sanngjarnt. Ef ég tala aðeins um Keflavíkurliðið þá er alveg á hreinu en þeir eru með betra lið en taflan segir. Þeir komu dýrvitlausir til leiks og við vorum í brasi fyrstu 10 mínúturnar og í raun heppnir að fá ekki mark á okkur. Eftir það náðum við meiri stjórn á leiknum og sigla þessu heim,“ sagði Björn Berg í samtali við Vísi að leik loknum.

Óli Stefán Flóventsson þjálfari sagði að mikil áhersla hefði verið lögð á að bæta varnarleik liðsins og það var ekki marga veikleika að finna á þeim hluta liðsins í dag.

„Við gáfum ekki mörg færi á okkur. Við vorum samt að brjóta klaufalega á okkur rétt fyrir utan vítateiginn og hleypa þeim í þessa háu bolta sem þeir vilja vera í og þar skapaðist hætta. Við réðum að mestu leyti vel við það. Við spiluðum virkilega vel í dag og það komu margir fínir spilkaflar hjá okkur.“

Sigurinn var kærkominn eftir þrjá tapleiki Grindvíkinga í röð.

„Við vorum ekkert komnir í neina neikvæðni. Svona er þetta bara, það taka flest liðin dýfu einhvern tíman á tímabilinu og við virðumst gera það alltaf á sama tíma. Það var það besta sem gat gerst að mæta Keflavík eftir svona taphrinu því það þarf ekkert að hvetja menn áfram fyrir svona leik,“ sagði Björn Berg að lokum en Grindvíkingar unnu báða Suðurnesjaslagina í Pepsi-deildinni í sumar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira