Innlent

Kartöflurnar seinar á ferðinni í ár

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nýjar íslenskar kartöflur eru nú fáanlegar í verslunum en uppskeran er heldur seinna á ferðinni í ár en venjulega. Tíðarfarið gæti haft áhrif á reksturinn að sögn kartöflubónda í Þykkvabænum.

Guðni Þór Guðjónsson og Lilja Guðnadóttir eru kartöflubændur í Hrauk í Þykkvabæ og rækta kartöflur í um þrjátíu hektara landi. „Við byrjuðum hérna á fimmtudaginn en það var nú byrjað hérna í Þykkvabænum 23. júli. Það er að minnsta kosti tíu dögum seinna en hefur verið undanfarin ár að minnsta kosti,“ segir Guðni.

Allir þurfa að leggja hendur á plóg þegar kartöflurnar eru teknar upp en þrjú börn þeirra Guðna og Lilju eru engir nýgræðingar í kartöflugörðunum. Eftir eina til tvær vikur verður hægt að taka upp gullauga en þær rauðu eru tilbúnar síðast. Guðni er þó mátulega bjartsýnn í ár en óheppilegt tíðarfar í sumar gæti komið niður á rekstrinum.

„Það er búin að vera þannig tíð, ekki viðrað vel á okkur,“ segir Guðni, en það seinkar uppskerunni. „Við vitum svo sem ekki hvernig það endar en það lítur kannski ekkert allt of vel út eins og staðan er í dag.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×