Lífið

Leitar sér hjálpar vegna andlegra veikinda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michelle Williams sést hér lengst til hægri en hún skipar söngsveitina Destiny's Child ásamt Kelly Rowland og Beyoncé Knowles.
Michelle Williams sést hér lengst til hægri en hún skipar söngsveitina Destiny's Child ásamt Kelly Rowland og Beyoncé Knowles. Vísir/getty
Bandaríska söngkonan Michelle Williams, sem þekktust er fyrir að vera einn þriggja meðlima söngsveitarinnar Destiny‘s Child, segist hafa leitað sér hjálpar vegna andlegra veikinda. Söngkonan greindi frá þessu á Instagram-reikningi sínum í gær.

Williams hefur lengi barist fyrir opinni umræðu um geðsjúkdóma og segist hafa tekið sjálfa sig á orðinu þegar veikindin báru hana nær ofurliði.

„Ég hlustaði nýlega á sömu ráð sem ég hef gefið mörgþúsund manns umhverfis heiminn og leitaði mér hjálpar hjá frábæru teymi heilbrigðisstarfsfólks,“ skrifaði Williams í Instagramfærslunni.



Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Williams tjáir sig um andlega heilsu sína. Í viðtali árið 2017 sagðist hún hafa verið hætt komin á hátindi ferils síns með Destiny‘s Child. „Það varð mjög, mjög slæmt, ég var farin að íhuga sjálfsvíg,“ var haft eftir Williams í viðtalinu á sínum tíma.

Fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi við Williams, þar á meðal rapparinn Missy Elliott og fyrrverandi meðlimur Destiny‘s Child, LaTavia Roberson.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×