Íslenski boltinn

Óli Kristjáns: Bæði hægt að spila fótbolta og skoða sögulegar slóðir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur er spenntur fyrir ferðalaginu en fyrst er leikur gegn Blikum á sunnudag.
Ólafur er spenntur fyrir ferðalaginu en fyrst er leikur gegn Blikum á sunnudag. vísir/bára
„Tveir leikir, Evrópukeppni, 3-0, ég er sáttur við það,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir að FH tryggði sig áfram í Evrópudeildinni.

FH gerði markalaust jafntefli við Lahti í síðari leik liðanna í Krikanum í kvöld eftir að hafa unnið fyrri leikinn 3-0.

„Mér fannst Finnarnir vera sprækir og reyna, fínir að spila boltanum úti á vellinum. Það sem var vesenið hjá þeim var að skapa færi.”

„Við fengum í fyrri hálfleik möguleika bæði úr skyndisóknum og klafs sem við setjum ekki á markið. Í seinni hálfleik þá voru stöður til þess að gera betur.“

„Fyrir þetta einvígi vissi ég að þetta var prýðisgott fótboltalið og það er sterkt að fara áfram og fá ekki á sig mörk. Það sýnir kannski hversu mikilvægur þessi útivallasigur var fyrir viku síðan.”

„Nú eigum við leik í deildinni á sunnudaginn og gátum aðeins leyft mönnum að fá smá andrými.“

FH á fyrir höndum langt ferðalag til Ísrael og var Ólafur nokkuð spenntur fyrir því.

„Haifa er hafnarborg falleg, nálægt Nasaret og það verður bæði hægt að spila fótbolta og skoða sögulegar slóðir þannig að þetta getur orðið upplífgandi á margan hátt,“ sagði Ólafur Kristjánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×