Íslenski boltinn

Bjarni Páll: Þeir nýttu ekki sénsana og við refsuðum, þannig gera góðu liðin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bjarni Páll skoraði eina mark leiksins
Bjarni Páll skoraði eina mark leiksins vísir/bára
Víkingur vann sterkan 1-0 sigur á KR í Vesturbænum í Pepsi deild karla í kvöld. Markaskorari Víkings, Bjarni Páll Runólfsson, var sáttur í leikslok.

„Alltaf gaman að skora, sérstaklega í Skjólinu, svo þetta var bara mjög skemmtilegt.“ 

„Andreas varði stórkostlega í fyrri hálfleik og hélt okkur svolítið inn í þessu. Það var frábært að ná að byrja seinni hálfleikinn á að skora, þá gátum við þétt aðeins raðirnar og dottið niður og vorum svolítið með þá þar. Þeir voru ekki að fá nein færi í seinni hálfleik, við héldum skipulaginu og þetta var bara frábær liðsframmistaða.“

Það má alveg halda því fram að Víkingur hafi kannski ekki átt skilið að fara með öll þrjú stigin úr Vesturbænum í kvöld eftir frammistöðu KR í fyrri hálfleik þar sem heimamenn óðu í dauðafærum. Mark Víkings kom eftir aðeins rúmar 40 sekúndur í seinni hálfleik.

„Það er nú oft þannig. Þú verður að nýta sénsana þína, annars verður þér refsað, og við refsuðum bara. Þannig gera góð lið bara. Héldu skipulaginu, þeir nýttu ekki sína sénsa en við nýttum okkar. Þetta var bara frábært.“

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Víking sem er í harðri baráttu í neðri hluta deildarinnar.

„Við vorum ekki að spila nógu vel fyrir þetta hlé svo við ákváðum að byrja af krafti núna og sína okkar rétta andlit héðan í frá. Geggjað að byrja á þremur punktum í Skjólinu,“ sagði Bjarni Páll Runólfsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×