Íslenski boltinn

Sjáðu sigurmarkið sem hélt spennu í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson tryggði Stjörnunni þrjú stig í Kaplakrika með mögnuðu sigurmarki tveimur mínútum fyrir leikslok.

Hilmar Árni skoraði markið með stórkostlegu skoti beint úr aukaspyrnu og fyrir vikið náðu Garðbæingar að halda sigurgöngu sinni áfram og minnka forskot Valsmanna á toppnum í tvö stig.

Valsmenn voru með fimm stiga forskot fyrir leikinn og það leit út fyrir það að þeir myndu halda því þegar FH-ingar komust tvisvar yfir. Breiðhyltingurinn var hinsvegar ekki að láta það gerast.

Hilmar Árni lagði upp fyrsta mark Stjörnunnar og skoraði síðan nnað markið sjálfur með skoti í slána og inn en í bæði skiptin jafnaði Stjörnuliðið metin.

Sigurmarkið kom síðan rétt fyrir leikslok en þetta var tólfta mark Hilmars Árna í Pepsi-deildinni í sumar og jafnframt í þriðja sinn sem hann skorar tvennu. Hilmar Árni skoraði einnig tvö mörk í leikjum á móti Keflavík og Víkingi.

Hilmar Árni sá einnig til þess að Stjarnan vann sinn fyrsta deildarsigur á FH í tæp fjögur ár eða síðan að liðið „stal“ Íslandsbikarnum með marki í uppbótartíma í lokumferð Pepsi-deildinnar í október 2014.

Það má sjá þetta frábæra mark Hilmars Árna í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×